fimmtudagur, 23. janúar 2014

Reykjavíkurborg  auglýsir til leigu nytjarétt af æðarvarpi í eyjunum á Kollafirði. Um er að ræða eyjarnar Akurey, Engey, Viðey og Þerney. Bjóða þarf í nytjarétt hverrar eyju fyrir sig. Leigutímabilið er frá 1. maí til 15. júlí.  

  • ""
Staða auglýsingar: 
Útrunnin

Tilboð skulu berast til þjónustuvers Reykjavíkurborgar í Borgartúni 12 – 14 fyrir kl. 16:15 fimmtudaginn 30. janúar 2014.

Mikið fuglalíf er í eyjunum og eru þar þekktar um 20 tegundir varpfugla. Einkennisfuglar eru mávar, endur, vaðfuglar og kría. Tvær algengustu tegundirnar eru sílamávur og æðarfugl.

Æðarfuglar eru í öllum eyjunum. Leigutaka eru heimiluð afnot af varpsvæði æðarfuglsins til að hagnýta dún, en sér jafnframt um að hlúa að hreiðrum og annast fugl og varpstöðvar þannig að æðarfugl megi vel við una. Leigutaka er heimil eggjataka frá sílamávi og öðrum vargfugli, en ber einnig skylda til að taka þátt í fækkun vargs með því að farga eggjum. Þetta er gert  í þeim tilgangi að verja æðarvarpið í eyjunum og minnka ágengi slíkra fugla í borginni. Verkið skal unnið í samvinnu við meindýraeiði borgarinnar. Leigutaki skal halda nytjasvæði hreinu eftir föngum.

Opinberum rannsóknarstofnunum er heimilt að gera rannsóknir á æðarfugli í eyjunum og tilraunir með ýmsa þætti varpsins meðan á varptíma stendur.
Eyjarnar eru opnar almenningi allt árið sem útivistarsvæði.

Eyjarnar eru skilgreindar sem „óbyggð svæði” eða „opin svæði til sérstakra nota” (Viðey) í aðalskipulagi. Þær eru allar á náttúruminjaskrá og Akurey, Engey og Viðey eru hverfisverndaðar í aðalskipulagi. Í Viðey og Engey eru sögulegar minjar m.a. frá hernámsárum. Leigutaki ábyrgist að umferð hans og afnot af eynni valdi engu tjóni á þess háttar minjum.

Nánari upplýsingar veitir Ólafur I. Halldórsson hjá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar, netfang: olafur.i.halldorsson@reykjavik.is eða í síma 693 74 66

 

ÍTAREFNI:
 
 
Loftmynd af eyjunum sem pdf.  Einnig er hægt að  skoða kort af eyjunum í Borgarvefsjá.