föstudagur, 12. júní 2015

Reykjavíkurborg tekur brátt yfir húsnæði á Hlemmi og leitar nú að rekstraraðila til að koma þar á fót veitinga- og matarmarkaði sem verði opinn alla daga. 

  • ""
  • ""
  • ""
  • ""
  • ""
Staða auglýsingar: 
Útrunnin

 

Viðskiptavinir eiga að geta notið veitinga á staðnum og þar verði einnig í boði fjölbreytt úrval matar svo sem kjöt, fiskur, grænmeti, ávextir auk tengdrar sérvöru á borð við blóm og kaffi.

Nýr rekstraraðili tekur þátt í breytingum á hlutverki hússins

Nýr rekstraraðili mun taka þátt í að skipuleggja breytingar á hlutverki hússins í samvinnu við Reykjavíkurborg. Hann velur verslanir og veitingastaði til samstarfs, aflar tilskilinna leyfa, sér um kynningar- og markaðsmál og annast allan daglegan rekstur hússins, þar með talið rekstur á salernum og öryggisvörslu. Reykjavíkurborg gerir sérstaklega ráð fyrir því að salerni verði opnuð aftur í húsinu.

Strætó B.S. mun áfram leigja lítinn hluta húsnæðisins undir starfsmannaaðstöðu fyrir vagnstjóra sína. Sú starfsemi mun færast í Vatnsmýrina þegar ný umferðarmiðstöð verður tekin í notkun.

Umsóknir sendist á netfangið sea@reykjavik.is í síðasta lagi 6. júlí 2015 ásamt viðskiptaáætlun og upplýsingum um rekstraraðila.

Við val á rekstraraðila verður lagt til grundvallar nálgun við hugmyndina, hönnun og útlit, tenging við anda skipulags á svæðinu, þekking, reynsla og fjárhagsgeta viðkomandi ásamt viðskiptaáætlun.

Þegar rekstraðili hefur verið valinn verður samið nánar um leigu fyrir húsið á grundvelli markaðsleigu á nærliggjandi svæði og mögulegan kostnað við breytingar á húsnæðinu.

 

Nánari upplýsingar eru í meðfylgjandi skjölum / Tengd skjöl:

 

Tengt efni:

Tækifæri fyrir verslun og veitingar í Mjódd