Í bæjarstjórnarlögum fyrir Reykjavík sem sett voru árið 1907 er í fyrsta sinn kveðið á um embætti borgarstjóra en það embætti var fyrst auglýst árið 1908.

Á þessum tíma var Reykjavík aðeins um tíu þúsund manna bær og því athyglisvert að kalla embættið borgarstjóra en ekki bæjarstjóra en það tengist líklega væntingum manna um hlutverk höfuðstaðarins og þann stórhug sem ríkti eftir að heimastjórnin komst á árið 1904. Tveir sóttu um embættið árið 1908, þeir Páll Einarsson sýslumaður og bæjarfógeti í Hafnarfirði og Knud Zimsen bæjarfulltrúi í Reykjavík, og var Páll ráðinn á bæjarstjórnarfundi þann 7. maí. Laun borgarstjóra á þessum tíma voru 4500 krónur en að auki fékk hann 1500 krónur vegna skrifstofukostnaðar á ári. Páll var ráðinn til sex ára en að þeim tíma loknum afréð hann að hætta störfum og næsti borgarstjóri var Knud Zimsen, sá hinn sami og sótt hafði um starfið sex árum fyrr.

Síðan þá hafa eftirtaldir einstaklingar gegnt embætti borgarstjóra í Reykjavík:

 • Jón Þorláksson 1932 - 1935.
 • Pétur Halldórsson 1935 – 1940.
 • Bjarni Benediktsson var settur borgarstjóri frá 8. október 1940 til 9. janúar 1941. Kosinn frá 9. janúar 1941 til 4. febrúar 1947.
 • Gunnar Thoroddsen frá 4. febrúar 1947 til 6. október 1960.
 • Auður Auðuns og Geir Hallgrímsson voru settir borgarstjórar frá 19. nóvember 1959 til 6. október 1960.
 • Geir Hallgrímsson var kosinn borgarstjóri frá 6. október 1960 til 1. desember 1972.
 • Birgir Ísleifur Gunnarsson frá 1. desember 1972 til 28. maí 1978.
 • Egill Skúli Ingibergsson frá 15. ágúst 1978 til 27. maí 1982.
 • Davíð Oddsson frá 27. maí 1982 til 16. júlí 1991.
 • Markús Örn Antonsson frá 16. júlí 1991 til 17. mars 1994.
 • Árni Sigfússon frá 17. mars 1994 til 13. júní 1994.
 • Ingibjörg Sólrún Gísladóttir frá 13. júní 1994 til 1. febrúar 2003.
 • Þórólfur Árnason frá 1. febrúar 2003 til 1. desember 2004.
 • Steinunn Valdís Óskarsdóttir frá 1. desember 2004 til 13. júní 2006.
 • Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson frá 13. júní 2006 til 16. október 2007.
 • Dagur B. Eggertsson frá 16. október 2007 til 24. janúar 2008.
 • Ólafur F. Magnússon frá 24. janúar 2008 til 21. ágúst 2008.
 • Hanna Birna Kristjánsdóttir frá 21. ágúst 2008 til 15. júní 2010.
 • Jón Gnarr frá 15. júní 2010. til 16. júní 2014.
 • Dagur B. Eggertsson frá 16. júní 2014.

Heimildir:

Saga Reykjavíkur – bærinn vaknar – Guðjón Friðriksson 1991.

Saga Reykjavíkur – borgin – Eggert Þór Bernharðsson 1998.