Í lok árs 2018 skilaði stýrihópurinn Brúum bilið tillögum um uppbyggingu leikskóla fram til ársins 2023 með það að markmiði að bjóða megi öllum börnum 12 mánaða og eldri leikskólavist. Uppbyggingin felst fyrst og fremst í byggingu nýrra leikskóla en einnig í endurbótum, viðbótarhúsnæði og viðbyggingum við starfandi leikskóla, fjölgun barna í sjálfstætt starfandi leikskólum og áformum um að styrkja dagforeldrakerfið. 

Stýrihópurinn starfar samkvæmt þessum tillögum. Á árinu 2018 voru teknar í notkun sjö svokallaðar ungbarnadeildir við jafn marga leikskóla í öllum hverfum borgarinnar. Á árinu 2019 voru sjö aðrar ungbarnadeildir opnaðar og einnig á árinu 2020. Stefnt er að opnun fleiri á árunum 2021 og 2022 þannig að ungbarnadeild verði við alla leikskóla borgarinnar með fjórar deildir eða fleiri. Í ársbyrjun 2021 voru ungbarnadeildir við 26 leikskóla af 63 í borginni. 

Stýrihópinn Brúum bilið skipa Skúli Þór Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, Alexandra Brien varaformaður og Örn Þórðarson borgarfulltrúi. Til ráðgjafar eru Daníel Benediktsson, Ásdís Olga Sigurðardóttir og Elísabet Helga Pálmadóttir hjá skóla- og frístundasviði, Rúnar Gunnarsson og Hildur Freysdóttir hjá umhverfis- og skipulagssviði og Guðlaug S. Sigurðardóttir frá fjármála og áhættustýringarsviði sem er starfsmaður hópsins. . 

Stýrihópurinn mun starfa til loka maí 2022.