Einstaklingskennsla (Individualized Instruction, Self-paced Learning, Self-Directed Learning, Contract Learning, Adaptive Learning) hefur verið skilgreind og útfærð með ýmsum hætti. Hér er gengið út frá þröngum skilningi á þessu hugtaki. Oftast er lögð áhersla á að nemandinn setji sér eigin markmið og taki aukna ábyrgð á námi sínu. Nemandinn áætlar afköst sín og setur sér markmið að keppa að, t.d. með hvaða hætti hann hyggst bæta sig á ákveðnu sviði.
Einstaklingskennsla, í þeirri merkingu sem hér er lögð í hugtakið, er gjarnan skipulögð í kringum reglulega fundi kennara og nemanda. Á þeim er farið yfir stöðu mála, nemandi og kennari leggja mat á hvernig til hefur tekist og leggja línur um námið sem framundan er. Segja má að hér sé um nokkurs konar námssamning að ræða.
Afar mismunandi er hversu langt er gengið við að beita þessari aðferð. Hana má leggja til grundvallar skólastarfinu í heild eða nýta við útfærslu á kennslu á afmörkuðum sviðum. Sem dæmi má tengja viðfangsefnin ákveðnum námsgreinum, afmörkuðum námsþáttum eða t.d. heimanámi. Ekki er óalgengt að einstaklingskennslu sé beitt í námsgreinum eins og stafsetningu, skrift og stærðfræði. Hver nemandi lærir síðan á eigin hraða, tekur stöðupróf eftir því sem við á, og keppir að því að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið. Við skipulag einstaklingskennslu er oft höfð hliðsjón af markmiðum eins og þau eru sett fram í skólanámskrá eða að byggt er á viðmiðum aðalnámskrár um lykilhæfni.
Þessi vinnubrögð hafa einnig verið nefnd einstaklingsáætlanir, áætlanir eða áform.
Þróuð hafa verið margvísleg hjálpartæki til að nota við skipulag einstaklingskennslu. Má þar nefna dagbækur, eyðublöð, gátlista, matslista og uppgjörs- og endurgjafarform.
Heimild: heimasíða Ingvars Sigurgeirssonar