Hirða við heimili 

Íbúar verða að hafa aðgang að tunnu undir blandaðan úrgang við heimili sitt. Gráa tunnan er undir blandaðan úrgang og er 240 lítrar að stærð en íbúar í fjölbýli geta óskað eftir 660 lítra kari ef aðstæður leyfa. Athugið að á heimilum þar sem lítið fellur til af blönduðum úrgangi geta íbúar í einbýli óskað eftir spartunnu sem er ódýrari og helmingi minni eða 120 lítrar. Íbúar í fjölbýlum geta endurskoðað fjölda grárra tunna og fækkað þeim ef tilefni er til og greitt þannig lægri hirðugjöld.
 
Reykjavíkurborg hefur farið þá leið að bjóða íbúum að velja það þjónustustig sem hentar þeim og að greiða fyrir þjónustuna í takt við það. Þannig geta íbúar valið hvort þeir vilja nýta sér þjónustu grenndar- eða endurvinnslustöðva eða hvort þeir kjósa að endurvinnanlegur úrgangur sé sóttur frá heimilum þeirra. Íbúar þurfa því að óska eftir grænni tunnu undir plast og blárri tunnu undir pappír og pappa við heimili sitt.
 
Tunnur eru losaðar misoft eftir úrgangsflokki. Athugið að hirða fer oftast fram í tvískiptum bílum og tveir úrgangsflokkar eru því hirtir í einu. Viðbótargjald er greitt ef ílát er sótt meira en 15 metra frá hirðubíl. 
 
Rúmist úrgangur ekki í núverandi ílátum með lengri losunartíðni eru íbúar hvattir til að auka flokkun og skil endurvinnsluefna hvort sem er í tunnur við heimilið eða á grenndar- og endurvinnslustöðvar. Einnig er hægt að óska eftir að fjölga ílátum og/eða stækka ílát við heimilið. 

Fjölbýli

Meirihluta eigenda þarf til að óska eftir breytingum á fjölda og tegund tunna í fjöleignarhúsum þar sem slíkar breytingar hafa áhrif á gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs íbúa hússins. Í smærra fjölbýli þar sem ekki er starfandi hússtjórn dugar þó tölvupóstur íbúa um að þeir séu sammála um breytingarnar.
 
Í lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 er fjallað um réttindi og skyldur eiganda fjöleignarhúsa. Sorpgeymslur eru almennt í sameign fjöleignarhúsa og bera eigendur allir óskipta ábyrgð á sameigninni sbr. 57. gr. laganna. Húsfélagið og eigendur bera ábyrgð á sameiginlegum kostnaði skv. ákvæðum 43. og 47. gr., og því ábyrgð á kostnaði sem hlýst af rangt flokkuðum úrgangi. Sannist að einn eigandi sé að valda húsfélaginu kostnaði með því að flokka ekki úrganginn getur húsfélagið endurkrafið hann um kostnaðinn skv. almennum reglum kröfuréttar.
 
Húsfélag getur einnig sett húsreglur sem ná til flokkunar á úrgangi sbr. 1. tl. C-liðar 41. gr. sbr. einnig 74. gr. laganna, einkum 1. tl. 3. mgr. Sannist það að einn eigandi fari ítrekað ekki eftir reglunum þá getur húsfélagið lagt bann við búsetu eða dvöl hans í húsinu sbr. 1. mgr. 55. gr. laganna en gæta verður að því að veita eiganda tækifæri á að bæta sig sbr. 2. mgr. sömu greinar. Hægt er að fá álit kærunefndar húsamála skv. 80. gr. laganna um ágreining sameigenda um túlkun á lögunum og/eða fara með málið fyrir dómstóla sbr. 6. mgr. 80. gr. og fá endanlega niðurstöðu um álitaefnið.

Rekstraraðilar

Rekstraraðilar sem úrgangur fellur til hjá skulu sjálfir sjá um söfnun og meðferð á þeim úrgangi. Reykjavíkurborg ber ábyrgð á að söfnun úrgangs fari fram innan borgarmarkanna og að sjá til þess að innviðir séu til staðar til að tryggja rétta meðhöndlun úrgangs. Rekstraraðilar hafa frjálsar hendur við samningagerð við einkaaðila um hirðu og flokkun úrgangs sem fellur til frá fyrirtækinu. SORPA bs. tekur við flokkuðum úrgangi frá einkaaðilum á móttökustöðvum en aðilunum er frjálst að velja þær leiðir sem þeir kjósa fyrir endurvinnsluefni. Einkaaðilar sem hirða blandaðan úrgang frá rekstraraðilum sjá um að bagga og pakka úrgangi áður en honum er skilað á urðunarstað í Álfsnesi.

Umframsorp sem ekki rúmast í tunnum

Hægt er að kaupa merkta poka undir umframsorp eða fara með úrgang á grenndar- eða endurvinnslustöðvar ef úrgangur rúmast ekki ílátum við heimili.
 
Til að tilfallandi umframúrgangur, sem ekki rúmast í ílátum, sé hirtur við heimili þarf hann að vera í sérmerktum pokum sem innifela gjald. Pokana eru seldir fimm saman á rúllu og hægt að kaupa hjá N1 stöðvum í Reykjavík og í Þjónustuveri Reykjavíkurborgar í Borgartúni 12-14.

Þegar poki fyrir umframúrgang er nýttur og óskað er losunar skal staðsetja hann við hlið íláts heimilis. Pokinn er eingöngu ætlaður heimilum í Reykjavík og undir úrgang sem til fellur á heimilinu, plast, pappír og pappa og blandaðan úrgang. Óheimilt er að setja í pokann spilliefni eða annan hættulegan úrgang, pappír eða pappa, umbúðir með skilagjaldi, raftæki, timbur, brotamálm og annan grófan úrgang, garðaúrgang, múrbrot, jarðefni eða grjót. Slíkum úrgangi á að skila á endurvinnslustöðvar SORPU bs.

Íbúar greiða jafnframt eftir fjölda og stærð íláta við heimili. Til þess að slíkt kerfi gangi upp er nauðsynlegt að innheimta gjald fyrir tilfallandi umframúrgang sem ekki rúmast í tunnum. Ef umframúrgangur fellur ítrekað til er æskilegt að endurskoða fjölda og stærð íláta.

15 metra reglan

Aðgengi að ílátum undir heimilisúrgang í borginni er misjafnlega gott og það hefur áhrif á kostnað við hirðu, fjölda tjóna og heilbrigði starfsmanna sem sinna hirðu úrgangs. Sem dæmi þarf starfsfólk að ganga 200 m með ílát sem staðett er 50 m frá hirðubíl: ganga þarf að tunnunni, draga tunnuna að bílnum til losunar, skila tunnunni og ganga aftur að bílnum.
 
Sérstakt gjald er tekið af ílátum sem draga þarf lengra en 15 metra frá sorpgeymslu eða -gerði að hirðubíl til losunar skv. gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs í Reykjavík. Íbúar geta komist hjá gjaldi með því að færa tunnur sínar varanlega eða á losunardegi innan 15 metra. Öll lát verða tæmd á losunardegi en þurfi ítrekað að sækja þau lengra en 15 metra verður lagt á viðbótargjald. Þar sem ílát standa lengra en 15 metra frá hirðubíl við losun en íbúar vilja draga úr kostnaði við hirðu geta þeir staðsett ílátin nær á losunardegi eða fært sorpgerðin varanlega.
 
Ætli lóðarhafar að færa sorpgeymslur innan lóðar þarf að sækja um byggingarleyfi fyrir framkvæmdum til byggingafulltrúa. Umhverfis- og skipulagssvið veitir allar frekari upplýsingar og er íbúum innan handar með leiðbeiningar og ráðgjöf varðandi flutning sorpgeymsla þar sem því verður við komið í síma 4 11 11 11 og byggingarfulltrui@reykjavik.is.
 

Endurnýjun og viðhald sorptunna

Ílát sem Reykjavíkurborg losar eru eign borgarinnar. Reykjavíkurborg sér því um endurnýjun og viðhald á skemmdum ílátum. Ef hægt er að rekja tjón á íláti til slæmrar umgengni kann íbúi að þurfa að greiða fyrir endurnýjun þess. Íbúar bera ábyrgð á að hreinsa ílátin. Einkaaðilar bjóða upp á þrif á tunnum og kerjum við heimili og geta íbúar leitað til þeirra ef þeir kjósa að kaupa þá þjónustu.

Ef ílátið við heimilið þarfnast viðhalds eða endurnýjunar er hægt að óska eftir því í síma 411-1111 eða með tölvupósti á sorphirda@reykjavik.is. Ástand ílátsins verður skoðað og gert við það eða það endurnýjað ef þörf er á. 

Aukahreinsun

Sé ekki hægt að losa ílát vegna hindrana, rangrar flokkunar eða af öðrum ástæðum, geta íbúar óskað eftir aukaferð til losunar. Greitt er fyrir þjónustuna samkvæmt gjaldskrá um meðhöndlun úrgangs.

Hæfilegur fjöldi íláta við heimili

Íbúar þurfa að hafa aðgang að tunnu undir blandaðan úrgang við heimili sitt, þ.e. annað hvort grárri tunnu eða spartunnu. Ekki er til almenn regla um fjölda tunna fyrir hverja íbúð og geta íbúar því ákveðið fjöldann og er kostnaðurinn samkvæmt því. Þörfin ræðst af fjölskyldustærð og fjölda íbúa, neysluvenjum og hversu duglegir íbúar eru að flokka. Að jafnaði eru um 0,8 gráar tunnur við hverja íbúð í Reykjavík. Samkvæmt þessu ættu fjórar íbúðir að geta sameinast um þrjár gráar tunnur undir blandaðan úrgang í fjöleignarhúsum og jafnvel færri tunnur flokki þeir pappír og plast eða jarðgera matarleifar.
 
Ekki er skylda að vera með bláa eða græna tunnu undir endurvinnsluefni. Reykjavíkurborg hefur farið þá leið að bjóða íbúum að velja það þjónustustig sem hentar þeim og að greiða fyrir þjónustuna í takt við það. Þannig geta íbúar valið hvort þeir vilja nýta sér þjónustu grenndar- eða endurvinnslustöðva eða hvort þeir kjósa að endurvinnanlegur úrgangur sé sóttur frá heimlum þeirra.
 
Ef horft er til endurvinnanlegra pappírsefna og plasts sem berst að jafnaði inn á heimili og hægt er að flokka frá má skipta einni grárri tunnu út á móti einni eða tveimur bláum eða grænum tunnum í fjöleignarhúsum, eftir því hversu vel tunnurnar eru nýttar. Í sérbýlishúsum ættu flestir að komst af með spartunnu, eina bláa og eina græna. Spartunnan er fyrir blandaðan úrgang eins og sú gráa en hún er ódýrari og helmingi minni en sú gráa.
 
Notaðu reiknivélina á ekkirusl.is  til að skoða gjöldin miðað við fjölda og tegund íláta. Efst á síðunni er hægt að nálgast dagatal fyrir hirðu úrgangs við heimili í Reykjavík

Hafa samband

Tekið er við fyrirspurnum og pöntunum í síma 4 11 11 11 eða á netfangið sorphirda@reykjavik.is. Athugið að hússtjórn fjöleignarhúsa þarf að óska eftir breytingum sem hefur áhrif á gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs. Símatími er milli kl. 8:30-9:00 og 13:00-14:00.