Formaður ráðsins er Heiða Björg Hilmisdóttir.

Velferðarráð starfar í umboði borgarráðs skv. samþykkt fyrir ráðið, staðfestri í borgarstjórn 5. apríl 2005, með breytingum 7. júní s.á., samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019 og eftir því sem lög mæla fyrir um, sbr. einnig heimild í 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Velferðarráð fer með verkefni félagsmálanefndar skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og lögum um húsaleigubætur nr. 138/1997. Jafnframt fer velferðarráð með verkefni húsnæðisnefndar skv. lögum um húsnæðismál nr. 44/1998.

Velferðarráð skal móta stefnu í velferðarþjónustu, svo sem félags-, heilbrigðis-, húsnæðis- og öldrunarmálum, taka ákvarðanir og gera tillögur til borgarráðs um verksvið þess. Jafnframt hefur ráðið eftirlit með að samþykktum og stefnumörkun sé fylgt. Þá fer ráðið með önnur þau verkefni sem borgarráð ákveður.

Velferðarráð gerir tillögur til borgarráðs um stefnumörkun á sviði félagsþjónustu og húsnæðismála í Reykjavík, fylgir eftir framkvæmd laga um málefni aldraðra nr. 125/1999, laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992, barnalaga nr. 76/2003 og laga um ættleiðingar nr. 130/1999 og gerir tillögur til borgarráðs um stefnu og framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar, sbr. 9. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, í samráði við barnaverndarnefnd.

Velferðarráð er skipað sjö fulltrúum kjörnum af borgarstjórn og jafnmörgum til vara. Borgarstjórn kýs formann og skal hann vera borgarfulltrúi. Ráðið kýs sér varaformann og skiptir að öðru leyti með sér verkum. Kjörtímabil ráðsins er það sama og borgarstjórnar.

Á grundvelli heimildar í 6. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga starfar sérstök áfrýjunarnefnd velferðarráðs, sbr. 3. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 13. gr. samþykktar fyrir ráðið. Áfrýjunarnefndin er skipuð þremur fulltrúum, kosnum af velferðarráði til loka kjörtímabils borgarstjórnar.