Mannauðsstefna Reykjavíkurborgar til ársins 2025.
Framtíðarsýn stefnunnar er að Reykjavíkurborg sem einn vinnustaður í öllum sínum fjölbreytileika hafi aðdráttarafl fyrir hæfileikaríkt og metnaðarfullt fólk sem vinnur í þágu borgarbúa.
Æskileg staða árið 2025 sé að starfsemi Reykjavíkurborgar einkennist af fagmennsku, framsækni og nýtingu tækniþróunar. Þannig verði borgin lifandi og skemmtilegur vinnustaður.
Fjögur leiðarljós munu móta og stýra starfsemi mannauðsmála til næstu ára. Þau eru mannvæn, samræmd, traust og snjöll.
- Reyjavíkurborg vill vera mannvæn og mæta síbreytilegum þörfum vinnustaðar og starfsfólks, sýna ábyrgð og lágmarka sóun til að bæta þjónustu og samfélagið í borginni. Lögð er áhersla á að starfsfólk fái jöfn tækifæri.
- Með samræmdri borg er átt við að Reykjavíkurborg sé einn vinnustaður í öllum sínum fjölbreytileika. Slíkt birtist í samræmdu verklagi og úrvinnslu mannauðsmála hjá borginni, öflugri liðsheild og stuttum boðleiðum til miðlunar upplýsinga.
- Reykjavíkurborg vill skapa traust, heilsa og vellíðan starfsfólks sé í fyrirrúmi og skapað sé öruggt umhverfi þar sem gagnkvæm virðing er í öllum samskiptum. Vellíðan í starfi skilar sér í aukinni ánægju og bættri þjónustu til borgarbúa.
- Með snjallri borg er átt við að Reykjavíkurborg sé framsækinn vinnustaður sem hvetur til þverfaglegrar starfsþróunar. Með því að horfa til framtíðar vinnum við í sameiningu að því að takast á við áskoranir, nýta okkur nýja tækni og grípa tækifæri þegar þau gefast.
Með leiðarljósin fjögur í huga göngum við sem einn vinnustaður til móts við framtíðina með áherslu á þverfaglegt samstarf og stuttar boðleiðir. Þannig verður Reykjavíkurborg mannvænn, samræmdur, traustur og snjall vinnustaður sem einkennist af fjölbreytni, sterkri menningu, sveigjanleika og samheldni.