Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins
Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2001 - 2024 er samvinnuverkefni átta sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu: Kjósarhreppi, Mosfellsbæ, Reykjavík, Seltjarnarnesi, Kópavogi, Garðabæ, Bessastaðahreppi og Hafnarfirði.
Vinna við svæðisskipulagið hófst 1998 þegar skipuð var samvinnunefnd þessara sveitarfélaga þar sem hvert sveitarfélag átti tvo fulltrúa. Formenn voru þrír, tveir frá Reykjavík og einn frá Hafnarfirði. Ráðgjafahópur, „nes planners“, var myndaður úr tveimur dönskum fyrirtækjum, Rambøll og Skaarup & Jespersen og tveimur íslenskum, Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddssen og VA arkitektum.
Í svæðisskipulaginu er að finna framtíðarsýn sveitarfélaganna átta á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu og þróun byggðar næsta aldarfjórðunginn, frá Kjósarhreppi í norðri að Vatnsleysustrandarhreppi í suðvestri. Sjálfbær þróun er ríkjandi hugtak í svæðisskipulaginu og meginmarkmiðin að þétta byggðina, tengja betur saman búsetu og atvinnu, efla almenningssamgöngur og tryggja að höfuðborgarsvæðið þróist áfram sem nútímalegt borgarsamfélag. Full samstaða er um þessi markmið þrátt fyrir mismunandi pólitískar áherslur innan sveitarfélaganna, enda hefur samvinna þessara sveitarfélaga á undanförnum árum leitt í ljós hagkvæmni þess að vinna saman að fjölmörgum málaflokkum, svo sem byggðaþróun, umhverfismálum, vegagerð og almenningssamgöngum. Svæðisskipulaginu er ætlað að festa þessa vinnu í sessi og gera hana markvissari, sem og að styrkja svæðið sem heild í samkeppni og samanburði við erlend borgarsvæði.
Svæðisskipulagið nær einkum til eftirtalinna málaflokka:
- landnotkunar og þróunar byggðar;
- landslagsskipulags og heildaryfirbragðs byggðar;
- samgöngumála;
- umhverfismála;
- mats á áhrifum samfélagslegra og hagrænna þátta á þróun byggðar á höfuðborgarsvæðinu og gerð svæðisskipulagsins.
Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2001 - 2024 var staðfest 20. desember 2002 og tók gildi 10. janúar 2003 þegar auglýsing um staðfestingu þess var birt í B-deild Stjórnartíðinda.