Flokkun úrgangs
Endurvinnsla og –nýting er að miklu leyti háð því að flokkun í mismunandi úrgangstegundir eigi sér stað þar sem flokkun er uppspretta hreinna úrgangsstrauma. Því hreinni sem úrgangsstraumarnir eru því verðmætari er úrgangurinn. Því veltur endurvinnsla að stóru leiti á hversu góð flokkunin er og að endurvinnsluefnum sé skilað í réttan farveg eftir flokkun.
Það sem má setja í ílát við heimili
Í ílát við heimili má eingöngu setja heimilisúrgang sem ætlaður er viðkomandi íláti. Úrgang skal flokka og endurnýta eins og kostur er.
Athugið að úrgangi sem óheimilt er að skila í ílátin má skila á grenndar- og endurvinnslustöðvar. Lyfjum skal skila í apótek.
Græn tunna
Einungis hreint plast fer grænu tunnuna, bæði mjúkt og hart. Mjúkt plast er t.d. plastpokar, plastfilma og bóluplast. Hart plast er til að mynda plastbakkar og – brúsar og önnur plastílát af ýmsu tagi undan hreinsiefnum og matvöru auk frauðplasts og minni hluta úr plasti.
Mikilvægt er að hreinsa allar matar- og efnaleifar af plastinu og minnka rúmmál eins og mögulegt er áður en það er sett í tunnuna. Gæta skal að því að málmar, rafmagnstæki, rafhlöður, spilliefni, pappírsefni eða aðrir úrgangsflokkar fari ekki í grænu tunnuna. Slíkt rýrir verulega endurvinnslugildi plastsins.
Blá tunna
Í bláu tunnuna má setja fimm flokka af pappír og pappa. Þeir eru:
- Bylgjupappi, s.s. pítsukassar, skókassar og aðrir pappakassar. Bylgjupappi þekkist af því að þegar hann er rifin sést á sárinu að hann er tvöfaldur með bylgjulaga pappa í miðjunni.
- Dagblöð, tímarit og auglýsingapóstur. Allt sem kemur inn um bréfalúguna. Einnig bækur. Æskilegt er að rífa límrönd sjálflímandi umslaga af.
- Fernur, s.s. undan mjólk, ávaxtasafa, rjóma o.þ.h. Plasttappi, sem oft er settur í fernur til að auðvelda notkun þeirra og verja innihaldið, má vera á fernum. Ál- og plastfilmur innan í fernum draga ekki úr endurvinnsluhæfni þeirra.
- Skrifstofupappír. Bæði litaður og hvítur ljósritunar- og prentarapappír.
- Umbúðapappír og pappi s.s. morgunkornskassar, eggjabakkar og kexpakkar. Gjafapappír má einnig fara í bláu tunnuna en sterkrauðan pappír ætti þó að setja í gráu tunnuna með blandaða úrganginum.
- Endurvinnslugildi pappírsefnanna ræðst af hreinleika þeirra. Mikilvægt er að hreinsa allar matarleifar af umbúðum og skítugan eldhúspappír og servíettur skal setja í gráu tunnuna eða flokka til jarðgerðar. Einnota bleiur eiga að fara í gráu tunnuna með blandaða úrganginum.
- Efni sem sett er í bláu tunnuna skal setja laust í tunnuna, ekki má setja efnið í plastpoka.
Grá tunna og spartunna
Gráa tunnan og spartunnan eru ætlaðar fyrir blandaðan úrgang frá heimilum. Blandaður úrgangur getur m.a. verið matarafgangar, matarsmitaðar umbúðir, samsettar umbúðir sem ekki er hægt að losa í sundur, ryksugupokar og einnota bleyjur.
Óheimilt er að setja eftirfarandi í gráu tunnuna og spartunnuna:
- Endurvinnanlegan pappír og pappa
- Dósir eða flöskur með skilagjaldi
- Garðaúrgang
- Múrbrot
- Jarðefni
- Grófan úrgang, s.s. timbur og brotamálma
- Rafmagnstæki
- Rafhlöður
- Spilliefni
- Lyf
Skil endurvinnsluefna
Í Reykjavík er skylda að flokka ýmsa úrgangsflokka frá blönduðum úrgangi. Reykvíkingar hafa fullt val um það hvernig þeir uppfylla kröfu um aukna endurvinnslu.
Reykjavíkurborg hefur farið þá leið að bjóða íbúum að velja það þjónustustig sem hentar þeim og að greiða fyrir þjónustuna í takt við það. Þannig geta íbúar valið hvort þeir vilja nýta sér þjónustu grenndar- eða endurvinnslustöðva eða hvort þeir kjósa að endurvinnanlegur úrgangur sé sóttur á heimili þeirra. Íbúar þurfa því að óska eftir grænni tunnu undir plast og blárri tunnu undir pappír og pappa við heimili sín. Tunnurnar eru keyrðar út endurgjaldslaust. Benda skal á að fyrirtæki á markaði bjóða upp á endurvinnslutunnur. Einnig taka ýmsir aðilar við endurnýtanlegum hlutum og textíl, s.s. Rauði krossinn og Mæðrastyrksnefnd.
Þegar ekki er rétt flokkað
Þegar íbúar flokka ekki rétt í tunnur eru þær skildar eftir ásamt leiðbeiningum. Fjarlægja þarf rangt flokkað efni úr tunnum áður en losun getur farið fram.
Græn tunna
Ef rangt er flokkað í grænu tunnuna er ekki hægt að losa hana þar sem aðskotaefni geta eyðilagt endurvinnsluefnin sem þegar eru í hirðubílnum. Fjarlægja þarf rangt flokkaða efnið út tunnunni áður en losun getur farið fram. Ef þörf er á losun fyrir þann tíma þá þarf að bregðast við með einu af neðangreindu:
- Hafa samband við Reykjavíkurborg og óska eftir aukalosun. Greitt er samkvæmt gildandi gjaldskrá fyrir eina ferð (akstur) auk gjalds fyrir hvert ílát sem losað er.
- Fara með plastið úr tunnunni á næstu grenndar- eða endurvinnslustöð.
Blá tunna
Ef rangt er flokkað í bláu tunnuna er ekki hægt að losa hana þar sem aðskotaefni geta eyðilagt endurvinnsluefnin sem þegar eru í hirðubílnum. Tunnan er þá skilin eftir og miði með upplýsingum límdur á tunnuna. Fjarlægja þarf rangt flokkaða efnið út tunnunni áður en losun getur farið fram. Ef þörf er á losun fyrir þann tíma þarf að bregðast við með einu af neðangreindu:
- Hafa samband við Reykjavíkurborg og óska eftir aukalosun. Greitt er samkvæmt gildandi gjaldskrá fyrir eina ferð (akstur) auk gjalds fyrir hvert ílát sem losað er.
- Fara með pappírinn úr tunnunni á næstu grenndar- eða endurvinnslustöð.
Grá tunna og spartunna
Ef rangt er flokkað í gráu tunnuna er hún ekki losuð, þ.e.a.s. ef í henni eru:
- Endurvinnanlegur pappír og pappi
- Dósir eða flöskur með skilagjaldi
- Textíll
- Garðaúrgangur
- Múrbrot
- Jarðefni
- Grófur úrgangur, s.s. timbur og brotamálmar
- Rafmagnstæki
- Rafhlöður
- Spilliefni
- Lyf
Séu nokkrar tunnur við hús eru eingöngu þær sem rangt er flokkað í skildar eftir. Íbúar verða að flokka þessi efni úr tunnum áður en þær eru losaðar. Ef skilja þarf tunnur eftir vegna rangrar flokkunar þurfa íbúar að losa þann úrgang sem um ræðir úr tunnum og bíða næstu losunar. Ef þörf er á losun fyrir þann tíma þá þarf að bregðast við með einu af neðangreindu:
- Hafa samband við Reykjavíkurborg og óska eftir aukalosun. Greitt er samkvæmt gildandi gjaldskrá fyrir eina ferð (akstur) auk gjalds fyrir hvert ílát sem losað er.
- Nálgast merkta poka sem hægt er að losa úrganginn úr tunnum í. Pokarnir eru síðan skildir eftir hjá tunnunum og fjarlægðir við næstu losun. Þeir fást á næstu N1 stöð í Reykjavík eða í Þjónustuveri Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12–14. Pokarnir eru seldir fimm saman á rúllu.
- Fara með úrgang úr tunnum á næstu endurvinnslustöð Sorpu en þær eru sex á höfuðborgarsvæðinu.
Hafa samband
Tekið er við fyrirspurnum og pöntunum í síma 4 11 11 11 eða á netfangið sorphirda@reykjavik.is. Athugið að hússtjórn fjöleignarhúsa þarf að óska eftir breytingum sem hefur áhrif á gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs. Símatími er milli kl. 8:30-9:00 og 13:00-14:00.