Thursday, 16. April 2020

Vinna við hreinsun á götum og stígum er komin á fullan skrið. Byrjað var nokkru fyrir páska, en veður setti strik í reikninginn því götusópar geta ekki unnið þegar hitastig er við frostmark. Unnið var á skírdag og annan í páskum til að vinna upp daga sem féllu út.

  • Götusópur á Tunguvegi í dag
  • Götusópur á Tunguvegi í dag

Björn Ingvarsson stjórnandi hjá þjónustumiðstöð borgarlandsins segir að fjölförnustu leiðirnar verði hreinsaðar fyrst. Allir helstu göngu- og hjólastígar, sem og stofnbrautir og tengigötur. „Þessar meginleiðir liggja þvert um borgarlandið og njóta því forgangs, en að lokinni hreinsun þeirra verður farið hverfaskipt í húsagötur og gangstéttar, sem eru sópaðar og þvegnar,“ segir Björn.

Á vef Reykjavíkurborgar – reykjavik.is/hreinsun – má sjá verkáætlun vegna hreinsunar og geta íbúar séð hvenær farið er í þeirra húsagötu. Breytilegt er frá ári til árs í hvaða hverfi er farið fyrst.

Björn segir að athugulir vegfarendur eigi til að gera athugasemdir við þrifin og bendi á að ekki sé nógu vel þrifið. Hann biður fólk um að athuga að fyrsta sópun er oft grófsópun. Það þurfi víða að taka mikinn sand upp af götum og stígum, en það fari í síðari yfirferð og götuþvotti.

Nánari upplýsingar: