Að skapa er að: finna upp, gera tilraunir, vaxa, brjóta reglur, gera mistök og skemmta sér.
Hitt Húsið er miðstöð ungs fólks þar sem ungmenni geta nýtt aðstöðuna til að syngja, dansa, taka upp tónlist, skapa, leika, læra, spila, funda …
Í Hinu Húsinu er: fjölnota salur t.d. fyrir dans, tónleika, markaði, fundi, málþing o.fl., upptökustúdíó, klippiaðstaða, svið og hljóðkerfi, fundarherbergi, vinnuaðstaða með nettengingu, borðtennisborð, fótboltaspil, playstation o.fl.
Hitt Húsið er rekið af Reykjavíkurborg og er opið öllu ungu fólki á aldrinum 16-25 ára.
Í Hinu Húsinu er starfrækt:
· Menningarstarf fyrir ungt fólk, s.s Gallerí, Götuleikhús, Listhópar, Unglist -listahátíð ungs fólks og Músíktilraunir.
· Upplýsingamiðstöð fyrir ungt fólk sem aðstoðar það við að koma hugmyndum í framkvæmd, bókar aðstöðu og heldur úti upplýsingagáttinni Áttavitinn.is
· Atvinnuráðgjöf og vinnuúrræðanámskeið
· Jafningjafræðsla og hópastarf
· Frístundastarf fatlaðra og List án landamæra
· Opið hús fyrir 16-18 ára
Markmið Hins hússins
- Að veita ungu fólki aðstöðu og aðstoð við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd.
- Að endurspegla menningu ungs fólks.
- Að veita upplýsingar og leiðbeina ungu fólki, í samstarfi við aðra fagaðila og samtök.
- Að vera miðstöð ungs fólks í leit að sumarstarfi.
- Að vera vettvangur fyrir félagsleg úrræði og ráðgjöf fyrir ungt fólk.
Saga Hins hússins
Hitt Húsið var stofnað af Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar 15. október 1991 fyrir ungt fólk á aldrinum 16- 25 ára.
Í fyrstu var Hitt Húsið staðsett í gamla skemmtistaðnum Þórskaffi í Brautarholti. Þar hófst fjölbreytt starfsemi fyrir ungt fólk á sviði menningar, atvinnumála og skemmtunar. Strax á fyrsta starfsárinu hófst Unglist – listahátíð ungs fólks sem og opin hús fyrir fötluð ungmenni. Í húsnæðinu var ennfremur æfingaaðstaða fyrir hljómsveitir og þar voru haldin böll á vegum framhaldsskólanna.
Í ágúst 1995 var starfsemin flutt í gamla Geysishúsið við Aðalstræti. Frá þeim tíma hefur Hitt Húsið þróast enn frekar í menningar- og upplýsingamiðstöð ungs fólks auk þess að starfrækja ýmis úrræði á sviði ráðgjafar, fræðslu og atvinnumála sem og frístundastarf fatlaðra ungmenna. Í mars 2002 var Hitt Húsið svo enn fært um set, í þetta sinn að Pósthússtræti 3- 5.
Haustið 2015 flutti hluti frístundastarfs fatlaðra upp á Rafstöðvarveg 9, en í janúar 2019 flutti starfsemi Hins Hússins alfarið upp á Rafstöðvarveg 7-9.