Í félagsmiðstöðvunum er boðið upp á uppbyggilegt félagsstarf fyrir 10 - 16 ára börn og unglinga í frítímanum. Áhersla er lögð á að ná til þeirra unglinga sem þarfnast félagslegs stuðnings og að bjóða upp á fjölbreytileg viðfangsefni. Unnið er í klúbbum, sértæku hópastarfi, opnu starfi og tímabundnum verkefnum. Nánari upplýsingar um opnunartíma félagsmiðstöðvanna eru á heimasíðum þeirra. 

Í fjórum félagsmiðstöðvum er boðið upp á sértækt starf fyrir fötluð börn og unglinga; Öskju, Hellinum, Hofinu og Höllinni. Þar er opið eftir að skóladegi lýkur eða frá kl. 13.40-17.00 alla virka daga. Þá er opið í skólafríum frá kl. 08.00-17.00, en lokað er í vetrarfríum. Sótt er um sértækt frístundastarf í gegnum Rafræna Reykjavík. 

Unglingalýðræði

Félagsmiðstöðvastarfið byggir á hugmyndafræði unglingalýðræðis sem á að tryggja áhrif þeirra á starfið. Rammar unglingalýðræðis eru landslög, ákvarðanir borgaryfirvalda og fjárhagsáætlun félagsmiðstöðvarinnar.

Í öllum félagsmiðstöðvum starfa unglingaráð sem móta viðfangsefni líðandi stundar og eru talsmenn unglinganna. Forvarnir meðal unglinga, hvað varðar reykingar, vímuefni og einelti, er snar þáttur í starfinu og lögð er áhersla á að styrkja jákvæða sjálfsmynd þeirra og stuðla að heilbrigðum lífsstíl. Stutt er við félagsstarf unglinga í 8. - 10. bekk í grunnskólum Reykjavíkur. 

Fyrir hverja er þjónustan?

Þjónustan er fyrir 10 - 16 ára börn og unglinga.

Ferill umsóknar/þjónustu

Öll börn og unglingar á aldrinum 10 - 16 ára geta sótt starfið í félagsmiðstöðinni. Sækja þarf um sértækt félagsmiðstöðvarstarf fyrir fötluð börn og unglinga í gegnum Rafræna Reykjavík. 

Hvað kostar þjónustan?

Ekkert kostar að koma í félagsmiðstöðina þegar það er opið hús. Kostnaði á skemmtanir og aðra viðburði er haldið í lágmarki. Kostnaður vegna sértæks félagsmiðstöðvarstarfs er í samræmi við gjaldskrá.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Hægt er að koma fyrirspurnum og ábendingum/kvörtunum á framfæri við verkefnisstjóra félagsmiðstöðvar, forstöðumann frístundamiðstöðvar eða skóla- og frístundasvið, Borgartúni 12 - 14, 105 Reykjavík. Sími: 4 11 11 11. Netfang: sfs@reykjavik.is.