Í fjölmenningarstefnu skóla- og frístundasviðs er sett fram leiðarljós í fjölmenningarlegu skóla- og frístundastarfi; að öll börn og ungmenni nái árangri í námi og leik, standi vel að vígi félagslega og fái tækifæri til að vera stolt af bakgrunni sínum og menningu. 

 

Markmið fjölmenningarstefnunnar taka mið af gildandi lögum, aðalnámskrá leik- og grunnskóla, starfsskrá frístundamiðstöðva, mannréttindastefnu borgarinnar,  ýmsum alþjóðasamningum, s.s. Barnasáttmála SÞ og nýjustu rannsóknum og fræðum á sviði fjölmenningarlegs skóla- og frístundastarfs.

Í grunnskólalögum segir að nemendur með annað móðurmál en íslensku eigi rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli um leið og stutt er við þróun móðurmálsins og stefnt að virku tvítyngi. Fram kemur að grunnskólum er heimilt að viðurkenna kunnáttu í móðurmáli nemenda með annað móðurmál en íslensku sem hluta af skyldunámi er komi í stað skyldunáms í erlendu tungumáli.
Í lestrarstefnu grunnskóla borgarinnar og læsisstefnu leikskóla, Lesið í leik, er ennfremur lögð áhersla á virkt tvítyngi, þ.e. að um leið og börn nái aukinni færni í íslensku sem öðru máli þá styðji skólinn við móðurmálskunnáttu þeirra í góðu samstarfi við foreldra.

Í Mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar kemur fram að menntun og fræðsla á vegum borgarinnar eigi að taka mið af þörfum fjölbreyttra fjölskyldna og að „fjölbreytni og marbreytileiki samfélagsins hljóti kynningu í starfi með börnum og ungmennum“ þar sem þeim gefst tækifæri til að kynna heimamenningu sína. Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er jafnframt kveðið á um að börn sem tilheyri minnihlutahópum skuli gert kleift að njóta eigin menningar, iðka eigin trú eða nota eigið tungumál í samfélagi með öðrum í hópnum.

Í fjölmenningarstefnu SFS, sem innleidd verður á næstu þremur árum, eru settar fram þrjár meginstoðir. Í fyrsta lagi að starfsfólk tileinki sér fjölbreyttar kennslu- og starfsaðferðir, í öðru lagi að stuðlað sé að góðri og markvissri kennslu íslensku sem annars máls frá upphafi leikskólagöngunnar til loka grunnskólans. Um leið skuli leitað leiða til að vinna með fjölbreytt móðurmál. Í þriðja lagi er lögð áhersla á að starfsfólk í skóla- og frístundastarfi hafi frumkvæði að samstarfi við foreldra og þrói lausnamiðaðar leiðir til að koma í veg fyrir að ólík sýn, menning og reynsla hindri samstarf.


Markmið um fjölmenningu

 • Að með fjölbreyttum kennslu- og starfsháttum sé komið til móts við þarfir allra barna og ungmenna.
 • Að lögð sé áhersla á gagnvirk samskipti og tækifæri barna af erlendum uppruna til að standa jafnfætis öðrum, með virðingu að leiðarljósi.
 • Að öll börn nái árangri í íslensku og að börn með annað móðurmál en íslensku öðlist færni til að viðhalda og efla móðurmál sitt um leið og þau ná árangri í íslensku.
 • Að starfsfólk eigi frumkvæði að samstarfi við foreldra og leiti leiða til að koma í veg fyrir að ólík sýn, menning og reynsla verði hindrun í samstarfi.


Verkefni skrifstofu SFS

 • Innleiða stefnu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur um fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf.
 • Veita fjölmenningarlegu skóla- og frístundastarfi markvissan stuðning, s.s. með fræðslu til starfsfólks.
 • Nýta ytra mat til að fylgjast með því hvernig unnið er með leiðarljós sviðsins í fjölmenningarlegu skóla- og frístundastarfi.
 • Nýta niðurstöður könnunar frá 2014 á fjölmenningarlegu leikskólastarfi til að vekja athygli á mikilvægi samstarfs við ólíka foreldra.
 • Bjóða upp á námskeið, efnivið og hugmyndir til að vinna með virkt tvítyngi.
 • Veita starfsfólki í skóla- og frístundastarfi stuðning í foreldrasamstarfi til að koma í veg fyrir að ólík sýn, menning og reynsla standi í vegi fyrir námi og vellíðan barna og ungmenna.
 • Fylgja eftir mati á stöðu nemenda af erlendum uppruna, Milli mála.
 • Auka samstarf við framhaldsskólastigið með það fyrir augum að draga úr brottfalli nemenda af erlendum uppruna úr framhaldsskólanámi.
 • Kortleggja þátttöku barna á frístundaheimilum og leita leiða til að fleiri börn nýti hana.

Mæling á árangri

 • Viðhorf til og gagnsemi af fræðslu og stuðningi til starfsfólks um fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf, áhrif á starfshætti, þekkingu og viðhorf.
 • Kortleggja kennslu barna og ungmenna í eigin móðurmáli á starfsstöðum SFS og á vegum annarra aðila, fjölda barna, fjölda tíma, fjölda tungumála, námsform.
 • Skoða sértækar leiðir sem starfsstaðir nýta sér til að ná til foreldra barna af erlendum uppruna.
 • Viðhorf foreldra barna af erlendum uppruna til skóla- og frístundastarfs.