Framkvæmd velferðarþjónustu fer að mestu fram á þjónustumiðstöðvum í hverfum borgarinnar hjá Barnavernd Reykjavíkur og hjá Heimaþjónustu Reykjavíkur.

Þjónustumiðstöðvar eru fimm og sinna þær þjónustu við einstaklinga og fjölskyldur, sérfræðiþjónustu við leik- og grunnskóla,frístundaráðgjöf og almennri upplýsingagjöf um starfsemi og þjónustu Reykjavíkurborgar. Þar er hægt að sækja um ýmiss konar þjónustu, svo sem fjárhagsaðstoð, sérstakan húsnæðisstuðning, heimaþjónustu og heimahjúkrun. Á miðstöðvunum er veitt félagsleg ráðgjöf, sálfræði- og kennsluráðgjöf vegna leik- og grunnskólabarna, frístundaráðgjöf og fleira. Þjónustumiðstöðvar bera ábyrgð á framkvæmd forvarnastefnu Reykjavíkurborgar. Á þjónustumiðstöðvum fer fram þverfaglegt samstarf þar sem lögð er áhersla á samþætta nærþjónustu.

Barnavernd Reykjavíkur ber ábyrgð á framkvæmd stefnu í barnaverndarmálum í borginni og vinnur náið með skólum og þjónustumiðstöðvum borgarinnar. Markmið í starfi Barnaverndar eru: nærþjónusta og samstarf, stuðningur inn á heimili, barnið í brennidepli og skilvirk og hröð greining mála.

Heimaþjónusta Reykjavíkur sinnir heimahjúkrun í borginni , félagslegri heimaþjónustu um kvöld og helgar og leiðir faglegt samstarf dagþjónustu á sviði heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu í hverfum borgarinnar.