• 1. bekkinga rí Austurbæjarskóla

Skólasetning í grunnskólum Reykjavíkur verður 23. ágúst 2021

Skráning í frístundaheimili fyrir börn í 2.-4. bekk fer fram á Völu frístund. 

Að byrja í grunnskóla 

Þegar barn fer úr leikskóla í grunnskóla er augljósasta breytingin sú að námið er lögbundið en nám í leikskóla er valkvætt. Foreldrum er því skylt að sjá til þess að barn þeirra sæki grunnskóla. Sjá nánar um grunnskóla Reykjavíkurborgar. Foreldrar geta svo valið hvort þeir skrá börn sín á frístundaheimili að hefðbundnum skóladegi loknum.

Ef börn innritast í sjálfstætt starfandi skóla, sérskóla eða flytja erlendis er óskað eftir að upplýsingar um það verði sendar á netfangið sfs@reykjavik.is. Sama á við ef börn fara í almennan grunnskóla í öðru sveitarfélagi.

Innritun allra skólaskyldra nemenda sem þurfa að flytjast milli skóla fyrir næsta vetur fer fram í Rafrænni Reykjavík (Umsókn um skólaskipti). Ekki þarf að skrá sérstaklega nemendur 6. og 7. bekkja þegar nemendahópar flytjast í heild milli skóla.

Samkvæmt Reglum um skólahverfi, umsókn og innritun í grunnskóla Reykjavíkurborgar eiga foreldrar kost á að sækja um skóla fyrir börn sín hvar sem er í borginni. Nemendur með lögheimili í tilteknu skólahverfi eiga afdráttarlausan rétt á skólavist í hverfisskóla og hafa því forgang, ef skóli þarf að takmarka nemendafjölda. Skóli tekur inn nemendur utan skólahverfis nema húsnæði hamli eða aðrar lögmætar ástæður. Í þeim tilvikum þegar er vafi á því hvort nemandi utan skólahverfis fær pláss í þeim skóla sem hann sækir um í gæti orðið einhver bið eftir svari.

Sjá skóladagatal 2021-2022

Innritun í frístundastarf

Umsókn í frístundaheimili/sértækar félagsmiðstöðvar

Frístundaheimili eru starfrækt við alla grunnskóla Reykjavíkurborgar, nema unglingaskóla. Þau bjóða upp á fjölbreytt tómstundastarf þegar skóladegi barna í 1. - 4. bekk lýkur til kl. 17:00. Sjá nánar um frístundaheimili borgarinnar.

Vakin er athygli á Reglum um þjónustu frístundaheimilaEf tafir verða á þjónustu vegna manneklu eru börn tekin inn á frístundaheimili til samræmis við 4. gr. reglnanna. Fyrst verður litið til forgangshópa en síðan eru árgangar hlutasamþykktir, þannig að börnum í 1. bekk er fyrst boðin dvöl, þá börnum í 2. bekk, þá börnum í 3. bekk og að lokum börnum í 4. bekk. Öllum börnum í árganginum er þá boðið jafn mikil dvöl, allt frá einum degi til fjögurra eftir því hvað starfsmannafjöldi frístundaheimilisins leyfir.

Sértækar félagsmiðstöðvar eru fyrir fötluð börn í 5.-10. bekk. Þær bjóða upp á fjölbreytt tómstundastarf þegar skóladegi lýkur til kl. 17:00. Sjá nánar um frístundastarf Reykjavíkurborgar fyrir fatlað fólk.

Verði tafir á þjónustu sértækra félagsmiðstöðva, s.s. vegna manneklu, er fyrst litið til forgangshópa en árgangar hlutasamþykktir, 1. bekkur fyrst og svo 2,. bekkur, þá 3. bekkur og 4. bekkur. 

Miðlun upplýsinga milli skólastiga

Skv. lögum um leik- og grunnskóla ber þeim að vera í samstarfi sem stuðlar að samfellu í uppeldi og menntun barna en samstarfið getur verið breytilegt eftir hverfum og skólum. Upplýsingar um börnin fylgja þeim á milli skólastiga svo unnt sé að mæta sérhverju þeirra þar sem það er statt í þroska og námi. Foreldrar skulu upplýstir um hvaða upplýsingum er miðlað á milli skóla en það er lagaleg skylda leikskólastjóra og annarra sérfræðinga á vegum sveitarfélagsins að koma þeim til skila.

Kynningarfundir í grunnskólum

Flestir, ef ekki allir skólar, bjóða foreldrum til  kynningarfundar eða námskeiðs við upphaf grunnskólagöngunnar þar sem þeir eru upplýstir um starfið framundan. Þannig eru foreldrar betur í stakk búnir til að tileikna sér hlutverk skólaforeldra. Yfirleitt er boðið til sérstaks fundar með kennara, nemanda og foreldrum hans þar sem fjallað er um skólagönguna framundan og stöðu nemandans.

Áhugi og viðhorf foreldra skipta sköpum

Þegar barn byrjar í grunnskóla þurfa foreldrar að gera ráð fyrir að það krefjist tíma þeirra og athygli. Það skiptir miklu máli að þeir kynnist daglegu starfi barnsins í skólanum. En fyrst og fremst ættu foreldrar grunnskólabarna að sýna starfi barna sinna áhuga og virðingu með því spyrja þau, hlusta og ræða á jákvæðum nótum um skólann og námið. Með viðhorfum sínum senda foreldrar börnum sínum skilaboð um hvað felist í því að vera góður nemandi. Sjá nánar hvernig foreldrar geta verið virkir í námi og starfi barna sinna.

Sjá myndbönd á átta tungumálum um íslenska skólakerfið.