• Gaman í leikskóla

Þegar leikskólaganga barna hefst er mikilvægt að strax myndist góð tengsl á milli leikskóla og heimilis. Gagnkvæm virðing milli foreldra og starfsfólks leikskólans er forsenda þess að barninu líði vel og að það fái notið sín til fulls.

Í hverjum leikskóla er ákveðið í samráði við foreldra hvernig skuli staðið að aðlögun barnsins. Foreldrar eru hér í aðalhlutverki og af þeim læra leikskólakennarar og annað starfsfólk að annast barnið og þekkja styrkleika þess og þarfir. Í sumum tilfellum er aðeins eitt barn í aðlögun í einu en oft er hópur barna tekinn inn í leikskólann á sama tíma. Stundum lengist viðveran dag frá degi en í öðrum tilfellum er gert ráð fyrir nærveru og þátttöku foreldra í leikskólastarfinu í ákveðinn tíma. Frá fyrsta degi er lögð áhersla á að byggja upp góð tengsl á milli leikskólans og fjölskyldu barnsins.

Viðtöl og kynningarfundir þegar byrjað er í leikskóla

Sumir leikskólar halda kynningarfundi fyrir foreldra þegar leikskólaganga barnanna hefst. Aðrir leikskólar bjóða upp á foreldraviðtöl sem kallast „fyrstu viðtöl“og enn aðrir leikskólar bjóða bæði upp á kynningarfundi og viðtöl. Upplýsingum um leikskólastarfið er miðlað á kynningarfundum og í viðtölum, ýmist í leikskólanum eða á heimili barnsins. Foreldrar veita starfsfólki upplýsingar um barnið og bakgrunn þess. Þær geta verið um styrkleika og skapgerð, uppáhaldsleikföng, bækur, tónlist eða leikfélaga, fjölskyldugerð, móðurmál eða annað sem foreldrar telja mikilvægt.

Leitast skal við að tryggja túlkaþjónustu fyrir þá foreldra sem ekki tala íslensku eða nota táknmál. Hægt er að nota ýmsar leiðir til þess að auðvelda samskipti milli leikskóla og þeirra foreldra sem ekki deila sameiginlegu tungumáli.

Sjá bæklinginn Velkominn til samstarfs um leikskólabarnið á ýmsum tungumálum. / Welcome to preschool - brochure for parents.

Orðalistar og skilaboð til erlendra foreldra / Messages between school and parents in different languages.