Leikskólinn og grunnskólinn starfa samkvæmt lögum. Um leikskólann gilda lög 2008 nr. 90. 12. júní. Í þeim segir að leikskólinn sé fyrsta skólastigið í skólakerfinu og skuli að ósk foreldra annast uppeldi, umönnun og menntun barna á leikskólaaldri.

Um grunnskóla gilda lög nr. 91/2008 þar sem segir m.a. að foreldrar gæti hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri.

Sveitarfélög bera ábyrgð á heildarskipan skólahalds í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins og á framkvæmd skólastarfs í sveitarfélaginu þ.á.m. mati og eftirliti. Í hverju sveitarfélagi starfar skólanefnd í umboði sveitarstjórnar sem fer með málefni grunnskóla eftir því sem lög og reglugerðir ákveða og sveitarstjórn eða sveitarstjórnir kunna að fela henni.

Í Reykjavík er það skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar sem gegnir hlutverki skólanefndar en skóla- og frístundasvið borgarinnar annast framkvæmd í umboði ráðsins.

Frístundamiðstöðvar eru reknar samkvæmt stefnu skóla- og frístundaráðs.

Frístundamiðstöðvarnar starfa samkvæmt starfsskrá frístundamiðstöðva, ábyrgð aðila sem standa fyrir félags- og tómstundastarfi fyrir börn og unglinga og æskulýðslögum: lög nr 70/2007.