Félagsmiðstöðvarnar mæta þörfum barna fyrir fjölbreytt frítímastarf og samveru með jafnöldrum sínum í öruggu umhverfi. Þær starfa í samræmi við 31. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um að börn eigi rétt á leik, hvíld og frístundum og til menningarlegra og listrænna starfa í samræmi við aldur og þroska.

Félagsmiðstöðvastarfið byggir á hugmyndafræði um barna- og unglingalýðræði sem tryggir áhrif barna og unglinga á starfið. Barna- og unglingaráð eru starfandi í félagsmiðstöðvunum en hlutverk þeirra er m.a. að virkja sem flesta til þátttöku í starfinu, skipuleggja og standa fyrir fjölbreyttri dagskrá, vera fyrirmynd annarra og vernda hagsmuni og velferð barna og unglinga.

Félagsmiðstöðvar starfa samkvæmt starfsskrá frístundamiðstöðva. Lögð er áhersla á að þjálfa samskiptafærni, bæta félagsfærni, styrkja sjálfsmyndina og efla samfélagslega virkni og þátttöku. Þessi markmið ríma við markmið Aðalnámskrár grunnskóla í lífsleikni.

Afþreyingar-, menntunar- og forvarnargildi frítímans skarast alla jafna í starfsemi félagsmiðstöðva. Sköpun, félagsleg virkni og frjáls leikur hefur afþreyingargildi, en hefur að sama skapi bæði forvarnar- og menntunargildi. Félagsmiðstöðin er vettvangur reynslunáms þar sem þátttaka og upplifun unglingsins er uppspretta námstækifæra.

Félagsmiðstöðvarnar eru með heimasíður þar sem sjá má hvað verið er að fást við hverju sinni og hagnýtar upplýsingar fyrir foreldra.