Félagsmiðstöðvarstarfið byggir á hugmyndafræði um unglingalýðræði. Lögð er áhersla á virkni, þátttöku og ábyrgð. Kosið er í svokallað unglingaráð og í því sitja þeir sem hafa boðið sig fram og eru lýðræðislega kjörnir. Mikilvægasta hlutverk unglingaráðs er að virkja sem flesta nemendur til þátttöku í starfi félagsmiðstöðvarinnar og standa fyrir og skipuleggja dagskrá félagsmiðstöðvarinnar. Unglingaráð starfar í samræmi við settar starfsreglur og er málsvari unglinganna. Markmiðið er að þjálfa unglinga í að taka sjálfstæðar ákvarðanir og taka afleiðingum þeirra. Jafnframt styrkja þessi vinnubrögð sjálfsmyndina, þjálfa unglinga í að temja sér víðsýni og gagnrýna hugsun. Þessi hugmyndafræði þjálfar unglinga einnig í þeim vinnubrögðum sem tíðkast almennt í lýðræðilegu samfélagi og er því góð þjálfun fyrir lífið.
Opið starf í félagsmiðstöðvum
Ýmis frístundatilboð í boði sem opin eru öllum. Unglingarnir geta komið og spilað billjard, borðtennis,bandí, hlustað á tónlist, spjallað við starfsfólkið o.s.frv. Meginmarkmiðið er að skapa unglingum vettvang til að hittast á hlutlausum og öruggum stað þar sem þeir geta komið á eigin forsendum og verið virkir á þann hátt sem hentar þeim hverju sinni undir handleiðslu fullorðinna.
Hópa- og klúbbastarf í félagsmiðstöðvum
Hópastarf gefur unglingum möguleika á að starfa í minni hópum að ákveðnum áhugatengdum verkefnum með aðstoð starfsmanns. Einnig getur hópurinn verið árgangaklúbbur og/eða stelpu- og strákaklúbbur þar sem dagskráin er fjölbreyttari og ekki miðuð við afmarkað þema. Ýmiss konar formleg og óformleg fræðsla er fastur liður í hópastarfinu. Hópar geta starfað í lengri eða skemmri tíma, allt eftir áhuga unglinganna og viðfangsefnum hópastarfsins hverju sinni.
Hópastarf gefur starfsfólki gott tækifæri til að vinna með fámennari hópa og persónulegri tengsl. Einnig skapast í hópastarfi betri tækifæri fyrir beina og óbeina fræðslu ásamt umfjöllun um ýmis unglingatengd málefni. Hópastarf er m.a. góður vettvangur til þess að þjálfa samskiptahæfni með jafningjum og fullorðnum ásamt því að gefa unglingum tækifæri til að þroska með sér hópvitund. Í hópastarfi af þessu tagi er meginmarkmiðið oft tengt sameiginlegu áhugasviði þátttakenda en önnur undirliggjandi markmið geta t.d. falið í sér að fram fari fræðsla um einelti, kynlíf, fordóma, unnið verði með samskiptin í hópnum eða sjálfsstyrkingu.