Leikskólinn

Í leikskólum eru starfandi foreldrafélög sem hafa það hlutverk að styðja við leikskólastarfið, stuðla að velferð barnanna og efla samskipti foreldra innbyrðis og við leikskólann. Á heimasíðu leikskólans eru upplýsingar um foreldrafélagið, kjörna fulltrúa í foreldraráði og fundagerðir. 

Við hvern leikskóla starfar foreldraráð. Því er ætlað að gefa umsagnir til leikskólans og leikskólaráðs um skólanámskrá og aðrar áætlanir um starfsemi leikskólans, sbr. 2. mgr. 4. gr.laga um leikskóla. Foreldraráðið fylgist jafnframt með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana í leikskólanum og kynningu þeirra. Foreldraráð hefur umsagnarétt um allar meiri háttar breytingar á leikskólastarfinu.

Grunnskólinn

Foreldrafélög í grunnskóla eru lögbundin og allir foreldrar verða sjálfkrafa félagar í þeim, sjá lög um grunnskóla, nr. 91/2008, 9. gr.

Einnig eiga foreldrar fulltrúa í skólaráði.

Þegar foreldrum lánast að byggja upp gott og traust samstarf sín á milli getur það haft afar góð áhrif á menningu skólans og/eða einstaka nemendahópa. Upplýsingar um hlutverk foreldrafélaga er á heimasíðu SAMFOK og hjá Landsamtökunum Heimili og skóli.
Hjá SAMFOK og Heimili og skóla er að finna upplýsingar um hlutverk bekkjarfulltrúa, en venjan er að foreldrar einstakra bekkja / hópa kjósi 2 – 3 fulltrúa til að vera leiðtogar í hópi foreldra í nemendahópnum á skólaárinu. Samheldinn foreldrahópur veitir börnum sínum stuðning til góðra verka og heilbrigðra samskipta. Einnig getur hann verið öflug forvörn á ýmsum sviðum, s.s. varðandi útilokun einstakra nemenda, einelti, agavanda og vímuefnanotkun.