Frístundaheimili 6-9 ára

Á frístundaheimilunum er lögð áhersla á að foreldrasamstarf sé virkt og ánægjulegt. Ein meginforsenda þess að börnunun líði vel er að aðstandendur og starfsmenn séu samstilltir og samtaka. Verkefnisstjórar frístundaheimilanna sinna undirbúningi fyrir hádegi og eru foreldrar beðnir um að nýta sér þann tíma til að ræða við þá.

Hvert frístundaheimili er með eigin heimasíðu, þar sem reglulega eru settar inn myndir, fréttabréf og vikudagskrá. Þar er einnig hægt að nálgast helstu upplýsingar um starfið og starfsfólkið á hverjum starfsstað. Auk þess er kallað til foreldrafunda og haldin eru opin hús fyrir foreldra og börn.

Félagsmiðstöðvastarf 10-16 ára

Gott samstarf við foreldra er lykilatriði þegar unnið er með börnum og unglingum sem sækja félagsmiðstöðvar. Slíkt samstarf getur verið með formlegum og óformlegum hætti. Upplýsingar á heimasíðu, fréttabréf, tölvupóstur, símtöl, foreldrafundir, opið hús (félagsmiðstöðvadagur) eru dæmi um leiðir sem eiga að tryggja að foreldrar séu meðvitaðir um hvað börn og unglingar aðhafast í félagsmiðstöðinni, hvað félagsmiðstöðin hefur upp á að bjóða og hvernig tekið er á málum sem upp kunna að koma.

Í flestum tilfellum er lítið um formlegt samstarf við foreldra dags daglega þar sem börn og unglingar koma á eigin vegum í félagsmiðstöðina. Frístundaráðgjafar taka vel á móti foreldrum sem hafa samband og eru tilbúnir til að aðstoða þá og upplýsa á allan hátt um starfsemina.