Mikilvægt er að foreldrar kynnist daglegu starfi barnsins í leikskólanum og sýni því áhuga og virðingu en það hefur bein áhrif á velferð barnsins, líðan þess og þroska.

Ráð um það hvernig þú sem foreldri getur stuðlað að velferð barnsins í leikskólanum:

  •     Sýndu starfi barnsins í leikskólanum lifandi áhuga og taktu virkan þátt í því.
  •     Hlustaðu á barnið, spurðu það um líðan þess í skólanum og viðburði dagsins.
  •     Notaðu hvert tækifæri sem gefst til að koma í leikskólann og kynnast reynsluheimi barnsins og starfsdegi þess.
  •     Vertu vakandi fyrir því sem barnið gerir vel og hrósaðu því.
  •     Talaðu fallega um önnur börn, starfsfólk og starfið í leikskólanum.
  •     Aflaðu upplýsinga um leikskólastarfið ef eitthvað er óljóst.
  •     Veittu kennurum og starfsfólki upplýsingar um allt sem gæti haft áhrif á líðan og hegðun barnsins.
  •     Leitaðu leiða til að kynnast betur öðrum börnum í leikskólanum og foreldrum þeirra.
  •     Farðu reglulega á heimsíðu leikskólans þar sem eru margar hagnýtar upplýsingar og fréttir af fagstarfinu.

Fjölskylda og leikskóli

Í leikskólanum er lögð áhersla á gott samstarf við foreldra með velferð barnsins að leiðarljósi. Styrkur hvers leikskólasamfélags felst í fjölbreyttum og virkum foreldrahópi. Því er mikilvægt að leita margvíslegra leiða í samstarfi við foreldra. Stofnað er til foreldrasamstarfs á jafnréttisgrundvelli þar sem foreldrar eru sérfræðingar í málefnum barna sinna og leikskólakennarar sérfræðingar í námsumhverfi þeirra.

Samstarf um barnið er snar þáttur í leikskólastarfinu, s.s. á foreldrafundum, í viðtölum og ekki síst í daglegum samskiptum. Þannig byggist upp sameiginleg þekking starfsfólks og foreldra á sérhverju barni, þroska þess og líðan í barnahópnum. Foreldrar, sem eru virkir þátttakendur í starfsemi leikskólans, eru líka öruggari um vellíðan og velferð barna sinna. Rannsóknir sýna að barnið tekur meiri framförum og er líklegra til að ná betri árangri þegar fram í sækir ef gott samstarf er á milli foreldra og leikskóla.
Upplýsingabæklingurinn Velkominnn til starfa um leikskólabarnið er til á nokkrum tungumálum.

Hverjir fá upplýsingar um barnið þitt?

Upplýsingar fá þeir einir sem koma að umönnun barnsins og námi. Ef miðla þarf upplýsingum til annarra utan leikskólans er það ávallt gert með vitund foreldra. Í leikskólum ríkir þagnarskylda. Allir starfsmenn skrifa undir þagnarheit um málefni og aðstæður sérhvers barns. Því er óheimilt að gefa foreldrum upplýsingar um börn annarra. Það eru vinsamleg tilmæli til foreldra að þeir virði þagnarskyldu í leikskólanum og ræði ekki út á við um það sem þeir verða áskynja um málefni og aðstæður annarra barna. Þegar börn hætta í leikskóla og byrja í grunnskóla eiga persónulegar upplýsingar að fylgja þeim á milli skólastiga svo unnt sé að mæta sérhverju barni þar sem það er statt á þroskabrautinni. Slík upplýsingagjöf á einnig við ef barn skiptir um leikskóla. Foreldrar skulu upplýstir um hvaða upplýsingum er miðlað á milli skóla en það er lagaleg skylda leikskólastjóra og annarra sérfræðinga á vegum sveitarfélagsins að koma þeim til skila.

Mat foreldra og barna á leikskólastarfi

Leikskólastarfsfólki ber að meta árangur og gæði skólastarfsins með virkri þátttöku barna og foreldra. Það er liður í því að efla fagstarfið og um leið foreldrasamstarfið. Þátttaka foreldra og barna í mati á leikskólastarfi er mikilvæg og getur verið með margvíslegum hætti. Brýnt er að sjónarmið allra komi fram og að hver og einn meti starfið út frá eigin forsendum. Niðurstöður nýtast til umbóta og áætlanagerða um stefnumótun skólans, hugmyndafræði og skipulag fagstarfsins. Skóla- og frístundasvið sendir reglulega út viðhorfskönnun til foreldra þar sem þeir eru beðnir um að meta ýmsa þætti í innra starfi leikskólans. Markmiðið er að bæta þjónustu leikskólans, skipuleggja betur fagstarfið og stuðla aðstöðugri framþróun.

Foreldraviðtöl

Í leikskólum er boðið upp á regluleg foreldraviðtöl einu sinni eða tvisvar á ári. Rætt er um líðan barnsins, þroska þess og þarfir. Foreldrar eru hvattir til að biðja um viðtal og samráðsfundi hvenær sem þurfa þykir. Í foreldraviðtölum eru sett fram markmið um þroska og framfarir barnsins sem unnið skal að í leikskólanum og heima. Tekið er mið af áhugasviði, hæfileikum og styrk barnsins, enda snýst samstarfið fyrst og fremst um að byggja upp sterkan einstakling og hvetja hann til dáða. Foreldrar og leikskólakennarar þekkja vel styrkleika og veikleika barnsins og því er samráð þeirra mikilvægt. Eins er mikilvægt að rödd barnsins heyrist því það hefur oft aðrar hugmyndir um styrk sinn en fullorðna fólkið. Tilkynning til foreldra um viðtal er til á nokkrum tungumálum.

Foreldrafundir

Foreldrafundir eru haldnir í leikskólanum a.m.k. einu sinni á ári. Þá er farið yfir skipulag og starfsáætlanir leikskólans eða foreldrum boðið upp á fræðslu um skólastarfið og þroska barna. Auk þessa geta fundirnir verið vettvangur fyrir málefni sem foreldrafélagið vill ræða. Foreldrafundir eru ýmist ætlaðir foreldrum einnar deildar eða allra barna í leikskólanum.
Tilkynning til foreldra um foreldrafundi er til á nokkrum tungumálum.

Foreldrafélög

Í leikskólum eru starfandi foreldrafélög sem hafa það hlutverk að styðja við leikskólastarfið, stuðla að velferð barnanna og efla samskipti foreldra innbyrðis og við leikskólann. Á heimasíðu leikskólans eru upplýsingar um foreldrafélagið, kjörna fulltrúa í foreldraráði og fundagerðir.

Foreldraráð

Við hvern leikskóla starfar foreldraráð. Því er ætlað að gefa umsagnir til leikskólans og leikskólaráðs um skólanámskrá og aðrar áætlanir um starfsemi leikskólans, sbr. 2. mgr. 4. gr.laga um leikskóla. Foreldraráðið fylgist jafnframt með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana í leikskólanum og kynningu þeirra. Foreldraráð hefur umsagnarétt um allar meiri háttar breytingar á leikskólastarfinu.