• Réttindaganga barna

Frístundaheimili eru starfrækt við alla grunnskóla Reykjavíkurborgar. Þau bjóða upp á fjölbreytt tómstundastarf þegar skóladegi barna í 1.-4. bekk lýkur og fram til kl. 17:00. Frístundamiðstöðvar eru í forsvari fyrir starfið í hverju hverfi nema á Kjalarnesi, í Úlfarsárdal, Ártúnsholti og Norðlingaholti. Þar sjá skólarnir sjálfir um rekstur frístundaheimilanna. Fellaskóli í Breiðholti sér einnig um rekstur frístundaheimilis skólans.

Leiðarljós frístundaheimilanna er að sérhver einstaklingur fái að njóta sín og þroskast í umhverfi sem einkennist af hlýju, öryggi og virðingu.

Lögð er áhersla á að þroska félags- og samskiptafærni í gegnum leik og starf sem og virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfi sínu. Frístundaheimilin leitast við að nota lýðræðislega starfshætti, efla hæfni barna til að móta sér sjálfstæðar skoðanir og hafa áhrif á umhverfi sitt og aðstæður. 

Innritun á frístundaheimili fer fram í febrúar ár hvert í Völu frístund. Foreldrar og barn fá póstkort í byrjun febrúar með upplýsingum um innritun, skólasetningu o.fl. Ef foreldrar þurfa aðstoð með að skrá börn sín geta þeir haft samband við viðkomandi grunnskóla, frístundamiðstöðina í hverfinu eða Þjónustuver Reykjavíkurborgar í síma 411-1111.

Áður en sótt er um dvöl á frístundaheimili þurfa börnin að vera skráð rafrænt í viðkomandi grunnskóla. Skráning fer fram á mínar síður á vef Reykajvíkurborgar. Sjá gjaldskrá frístundaheimila. Ekki er hægt að tryggja öllum börnum dvöl á frístundaheimili fyrr en tekist hefur að manna stöður frístundaleiðbeinenda/ráðgjafa. Börn sem eru að hefja skólagöngu hafa forgang að dvöl á frístundaheimilum.

Upplýsingar um annað frístundastarf er að finna á vefnum www.fristund.is. Þar er jafnframt að finna upplýsingar um frístundakortið sem foreldrar geta notað upp í greiðslu fyrir frístundastarf 6-18 ára barna, hvort sem það er frístundaheimili eða greiðsla á þátttöku- og æfingagjöldum.

Þjónusta við börn með sérþarfir er skipulögð í hverju frístundaheimili fyrir sig í samvinnu við foreldra, skóla og aðra fagaðila er tengjast börnunum.

Öll frístundaheimilin eru með heimasíður þar sem hægt er að sjá hvað börnin eru að fást við hverju sinni og sækja ýmsar hagnýtar upplýsingar fyrir foreldra.

Frístundaheimilin í borginni.