Frítímastarf fyrir þennan aldurshóp fer fram í félagsmiðstöðvum borgarinnar. Þar er leitast við að mæta þörfum unglinga fyrir fjölbreytt frítímastarf og samveru með jafnöldrum. Rannsóknir sýna að þátttaka unglinga í skipulögðu frítímastarfi hefur mikið forvarnargildi og gerir þá virkari í samfélaginu. Starfsemi félagsmiðstöðva miðar að því að bjóða öllum unglingum upp á valkost í frítímanum undir handleiðslu hæfra starfsmanna. Félagsmiðstöðvar eru því mikilvægur vettvangur fyrir ófélagsbundna unglinga.

Hópastarf gefur starfsfólki gott tækifæri til að vinna með fámennari hópa og persónulegri tengsl. Einnig skapast betri tækifæri fyrir beina og óbeina fræðslu og umfjöllun um ýmis málefni sem tengjast hagsmunum og áhugamálum unglinga. Hópastarf er því góður vettvangur til þess að þjálfa samskiptahæfni með jafningjum og fullorðnum og veita unglingum tækifæri til að þroska með sér hópvitund. Í hópastarfi tengist viðfangsefnið oft sameiginlegu áhugasviði þátttakenda en undirliggjandi markmið geta verið fræðsla um einelti, kynlíf, fordóma og að unnið sé með samskipti í hópnum eða sjálfsstyrkingu.

Sértækt hópastarf

Í slíku hópastarfi er fyrirfram ákveðið með hvaða þætti á að vinna og sérstaklega eru valdir í hópinn þeir einstaklingar sem hafa þörf fyrir sértæka vinnu. Oft er valið í hópinn af þverfaglegum teymum eða af þeim sem eru í miklu samstarfi við skóla eða aðra samstarfsaðila. Verið er að bjóða upp á úrræði sem í flestum tilfellum býðst ekki hjá öðrum og kallar á mikið og náið foreldrasamstarf.

Markmið með sértæku hópastarfi geta t.d. verið að vinna að því að styrkja sjálfsmynd þátttakenda, efla samskipta- og félagsfærni, stuðla að heilbrigðum lífsháttum eða breyta óæskilegu hegðunarmynstri. Oft er verið að vinna með unglinga sem þurfa aðstoð við að tengjast inn í almennt félagsmiðstöðvarstarf, styrkja þá og virkja í uppbyggilegu frístundastarfi.
 

Félagsmiðstöðvahópar

Samstarf við Vinnuskóla Reykjavíkur um hópastarf fyrir unglinga yfir sumartímann þar sem blandað er saman hefðubundinni unglingaskólavinnu og sértæku starfi með þátttakendum. Í framhaldi af starfi hópanna yfir sumartímann er einnig unnið með þá yfir vetrartímann þar sem hist er u.þ.b. tvisvar í mánuði. Í Léttliðahópa eru valdir unglingar sem þurfa á stuðningi að halda vegna hættuhegðunar. Í Fjörliðahópana eru valdir unglingar sem þurfa á félagslegri hvatningu að halda og eru félagslega óvirkir án sýnlegrar ástæðu. Lögð er áhersla á aukið sjálfstæði unglinganna ásamt ábyrgð og virkni í leik og starfi.

Opið starf

Ýmis frístundatilboð eru í boði sem opið fyrir alla. Unglingarnir geta komið og spilað billjard, borðtennis, bandí, hlustað á tónlist, spjallað við starfsfólkið o.s.frv. Opið starf er kjörinn vettvangur fyrir unglingana til að mynda tengsl hvert við annað og fyrir starsfólk til að
spjalla og tengjast unglingunum.

Meginmarkmiðið er að skapa unglingum vettvang til að hittast á hlutlausum og öruggum stað þar sem þeir geta komið á eigin forsendum og verið virkir á þann hátt sem hentar þeim hverju sinni undir handleiðslu fullorðinna.

Hópastarf

Hópastarf gefur unglingum möguleika á að starfa í minni hópum að ákveðnum áhugatengdum verkefnum með aðstoð starfsmanns. Einnig getur verið um að ræða árgangaklúbba og/eða stelpu- og strákaklúbba þar sem dagskráin er fjölbreyttari og ekki miðuð við afmarkað þema. Ýmiss konar formleg og óformleg fræðsla er fastur liður í hópastarfinu. Hópar geta starfað í lengri eða skemmri tíma, allt eftir áhuga unglinganna og viðfangsefnum hópastarfsins hverju sinni.

Vinahópar

Í vinahópum er unnið með unglinga sem þurfa á félagslegri hvatningu að halda og eru félagslega óvirkir án sýnilegrar ástæðu. Þar eru þeir þjálfaðir í félagsfærni og sjálfsmat þeirra og sjálfstraust eflt á markvissan hátt. Um er að ræða sambærilegan markhóp og í Fjörliðaverkefninu og oft verða þátttakendur í starfi Vinahópa þátttakendur í starfi Fjörliða í framhaldinu.

Unglingalýðræði

Unglingalýðræði er sú hugmyndafræði sem félagsmiðstöðvarstarfið byggir á og er sú leið sem notuð er til þess að tryggja áhrif unglinganna á starfið. Lögð er áhersla á virkni einstaklinganna, þátttöku og ábyrgð. Hluti af unglingalýðræðinu felst í því að kosið er í svokallað unglingaráð og í því sitja einstaklingar sem boðið hafa sig fram og eru lýðræðislega kjörnir. Mikilvægasta hlutverk unglingaráðs er að virkja sem flesta nemendur til þátttöku í starfi félagsmiðstöðvarinnar og standa fyrir og skipuleggja dagskrá félagsmiðstöðvarinnar. Unglingar í ráðinu eru fyrirmynd og bera m.a. ábyrgð á því að gott upplýsingastreymi sé á milli ráðsins og annarra unglinga. Unglingaráð starfar í samræmi við settar starfsreglur, mótar viðfangsefni líðandi stundar í félagsmiðstöðinni og er málsvari unglinganna.

Markmiðið er að þjálfa unglinga í að taka sjálfstæðar ákvarðanir byggðar á þeirra eigin skoðunum og hugmyndum og taka afleiðingum þeirra. Jafnframt styrkja þessi vinnubrögð sjálfsmynd unglinganna, þjálfa þá í að temja sér víðsýni og gagnrýna hugsun. Þessi hugmyndafræði þjálfar unglinga einnig í þeim vinnubrögðum sem tíðkast almennt í lýðræðilegu samfélagi og er því góð þjálfun fyrir lífið framundan.

Formleg og óformleg fræðsla

Um getur verið að ræða fræðsluerindi sem starfsfólk félagsmiðstöðva getur boðið hópum af unglingum upp á, ýmist í skólum, á opnunartíma félagsmiðstöðvarinnar eða í hópastarfi í félagsmiðstöðvum. Sem dæmi má nefna fordómafræðslu, sjálfstyrkingu, eineltisfræðslu og kynfræðslu. Einng er hér átt við fræðslustarf og kynningar frá ýmsum utanaðkomandi aðilum. Óformleg fræðsla er gríðarlega mikilvægur þáttur í starfinu og á sér þannig stað að starfsfólk tekur þátt í því að ræða við unglingana um málefni líðandi stundar og hvetja til gagnrýnnar hugsunar og skoðanaskipta.

Markmiðið með þessari fræðslu er aðallega að skapa aðstæður til umræðna og skoðanaskipta í unglingahópnum um málefni sem varða unglinga á einn eða annan hátt. Með þeim hætti er hægt að styðja og styrkja unglingana við ákvarðanatökur af ýmsum toga og beina þeim í átt að heilbrigðum lífsstíl.

Viðburðir

Viðburðir sem félagsmiðstöðvarnar standa fyrir í sínu starfi geta verið af ýmsum toga. Í flestum tilfellum er um að ræða viðburði sem unglingarnir hafa sjálfir komið með hugmyndir um og taka að sér að skipuleggja og framkvæma í samstarfi við starfsfólk. Um getur verið að ræða böll, keppnir, sýningar o.fl. Einnig getir verið um að ræða ýmsa sameiginlega viðburði í hverfunum s.s. sameiginlega tónleika, keppni á milli félagsmiðstöðva og heimsóknir á milli félagsmiðstöðva.

Þetta gefur unglingunum tækifæri til að koma eigin hugmyndum á framfæri og taka þátt í að skipuleggja og framkvæma þær í samráði við starfsfólk sem getur verið afar lærdómsríkt ferli. Þegar um sameiginlega viðburði er að ræða gefst tækfifæri til þess að kynnast öðrum unglingum, víkka sjóndeildarhringinn og prófa nýja hluti sem er mikilvægur þáttur í því að
þroska félagsfærnina.

Ferðir

Oft er farið í ferðir í starfi félagsmiðstöðvanna. Yfirleitt er um að ræða dagsferðir eða ferðir þar sem gist er eina eða fleiri nætur. Þetta geta verið óvissuferðir, skíðaferðir, ferðir með unglingaráðin, árgangaferðir, klúbbaferðir o.s.frv. Í ferðum gefst færi á að kynna fyrir unglingum möguleika á frístundastarfi sem hægt er að stunda ótengt húsnæði félagsmiðstöðvarinnar og útivist er yfirleitt stór þáttur í slíkum ferðum.

Ferðir veita unglingum og starfsfólki gott tækifæri til að mynda persónuleg tengsl og skapa samkennd innan unglingahópsins. Mjög oft eru unglingarnir að upplifa nýja og spennandi hluti í slíkum ferðum sem víkkar hjá þeim sjóndeildarhringinn. Ferðir reyna mjög á samskiptahæfni unglinganna þar sem nálægðin er mikil og þannig gefst gott tækifæri til að vinna með samskipti, trúnað og traust innan hópsins.

Þor-verkefnið

Þor er verkefni sem vottar framlag og árangur unglinga í félagsmiðstöðvarstarfi. Virk þátttaka í starfi unglingaráða, við skipulagningu ýmissa viðburða, við fræðslustarf o.s.frv. getur fallið undir verkefnið. Með þátttöku í Þorinu fá unglingarnir meira út úr sínum áhugamálum og viðfangsefnum, fá tækifæri til að framkvæma sínar eigin hugmyndir og læra af öðrum unglingum og starfsfólki.

Meginmarkmiðið er að unglingum gefist kostur á að fá starf sitt í félagsmiðstöðinni vottað, þ.e. að það óformlega nám sem þar á stað sé viðurkennt og metið í samfélaginu.

Forvarnarverkefni

Fornvarnarstarf er rauði þráðurinn í gegnum allt starf félagsmiðstöðvanna en ýmis sértæk forvarnarverkefni eru þar mikilvægur þáttur. Þverfagleg teymi, hverfarölt og ýmis átaksverkefni tengd forvörnum spila einnig stórt hlutverk í starfinu. Starfað er í samræmi við þá stefnu sem sett er fram í Forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar.

Markmið með sértækum forvarnarverkefnum er að unglingarnir fái góða og uppbyggilega reynslu af því starfi sem félagsmiðstöðvarnar bjóða upp á sem verði þeim leiðarvísir í átt til heilbrigðs lífsstíls.