Starf fyrir börn á aldrinum 6-9 ára fer fram í frístundaheimilum í hverfum borgarinnar að vetri til og ýmist á frístundaheimilum eða félagsmiðstöðvum yfir sumartímann. Frístundaheimilin bjóða upp á fjölbreytt frítímastarf þegar hefðbundnum skóladegi lýkur og á sumrin bjóðast ýmis námskeið fyrir þennan aldurshóp.

Meginmarkmiðið með barnastarfinu, sumar sem vetur, er að hver einstaklingur fái að njóta sín og þroskast í umhverfi sem einkennist af hlýju, öryggi og virðingu.

Lögð er áhersla á að þroska félagslega færni í gegnum leik og starf og að börnin læri að bera virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfi sínu.

Leitast er við að veita öllum börnum þjónustu, óháð getu þeirra, þroska eða fötlun og því er markmiðið að öll börn eigi kost á að taka þátt í starfinu og að tekið sé mið af styrkleikum sérhvers barns.

Mikið er lagt upp úr öryggi barnanna og hefur barnastarfið öryggisferla sem unnið er eftir.

Hópastarf

Unnið er í ólíkum hópum að ákveðnum verkefnum. Annars vegar er unnið með sértæka hópa vegna þess að þátttakendur þurfa sérstakan stuðning og hins vegar er unnið í áhugasviðshópum með ákveðnu þema.

Með hópastarfi er stefnt að því að börnin kynnist fjölbreyttum viðfangsefnum og vinnuaðferðum. Í hópastarfi gefst þeim tækifæri til að nálgast viðfangsefnið á persónulegum nótum og kynnast öðrum börnum. Hópastarfið býður upp á opnar spurningar og umræður um gildi og viðhorf og þjálfa samskiptahæfni.

Opið starf

Áhersla er lögð á frjálsan leik og uppeldislegt gildi hans.

Þemavinna og smiðjur þar sem börnin upplifa og kynnast nýjum viðfangsefnum.

Með opnu starfi eru börnin höfð með í ráðum varðandi viðfangsefni og val.

Markmiðið með opnu starfi er að börnin læri að taka ákvarðanir og að þau hafi vettvang til að þroskast og efla félagsleg samskipti í gegnum frjálsan leik.

Formleg og óformleg fræðsla

Farið í vettvangsferðir með börnin þar sem þau fræðast um umhverfi sitt, borgina og ýmsar stofnanir, s.s. söfn, sundlaugar og Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Einnig er farið í heimsóknir í einkafyrirtæki og börnin frædd um þá framleiðslu og þjónustu sem þau veita og börnin fá jafnframt kynningu á tómstundatilboðum í sínu hverfi.

Í anda barnalýðræðis eru ýmis málefni eru efst eru á baugi í samfélaginu og henta aldri og þroska barnanna tekin fyrir. Sem dæmi má nefna eineltis- og fordómafræðslu.

Foreldrakvöld og kynningar eru góður vettvangur fyrir börnin til að læra að koma fram og kynna starfið hverju sinni og efla þar með sjálfstæði og frumkvæði þeirra.

Markmið með fræðslu í barnastarfinu er að auka þekkingu og efla víðsýni barnanna. Fræðsla er mikilvæg forvörn sem hvetur börnin til að velja heilbrigð viðfangsefni í frítímanum.

Barnalýðræði

Barnaráð og barnafundir eru verkfæri til að virkja lýðræðisleg vinnubrögð.

Mikilvægt er að kenna börnum að hafa áhrif á líf sitt og starf. Með virku barnalýðræði er stefnt að því að efla virkni, sjálfstæði og ábyrgð barnanna. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er hafður til grundvallar.

Markmið með barnalýðræði er að börnin fái tækifæri til að æfa sig í lýðræðislegum vinnubrögðum og hafi áhrif á umhverfi sitt og viðfangsefni.