Rannsóknir sýna að ein mikilvægasta forsenda námsárangurs er lifandi áhugi nemandans. Uppspretta áhuga er að miklu leyti á heimilinu. Barn sem elst upp hjá foreldrum sem sýna námi og skólastarfi áhuga og virðingu, hvetja það, leiðbeina og styðja, upplifir að námið sé áhugavert og mikilvægt. Foreldrar þurfa þó að gæta þess að íþyngja ekki barni sínu eða gera óréttmætar kröfur til þess um árangur, því það er margt annað en einkunnir sem skiptir máli.

Jafnvel þótt foreldrar hafi efasemdir um eitt eða annað í skólanum má barnið ekki verða vart við vantraust eða tortryggni foreldra sinna heldur ættu þeir að ræða slík mál við kennara/skólastjóra án þátttöku barna sinna. 

Sjá leiðir til að auka hlutdeild foreldra í námi barna sinna.

Góð ráð til að tryggja farsæla skólagöngu:

  •     Leitaðu eftir því að eiga hlutdeild í námsmarkmiðum barnsins þíns. Ræddu þau við barnið og sýndu verkefnunum áhuga.
  •     Farðu aldrei neikvæðum orðum um námið eða skólann.
  •     Spurðu daglega um skólann.
  •     Fylgstu með því hvernig barninu vegnar í þeim markmiðum sem það vinnur að.
  •     Leitaðu leiða til að taka þátt í að meta árangur barns þíns.
  •     Hrósaðu barninu fyrir allar framfarir.
  •     Bentu því á hvernig það geti haldið áfram að bæta sig.
  •     Ef um heimanám er að ræða hjálpaðu barninu að koma sér upp góðum vinnuvenjum og aðstoðaðu eftir þörfum.
  •     Ef spurningar eða efasemdir vakna leitaðu þá skýringa hjá umsjónarkennara eða þeim sem koma að viðkomandi máli.
  •     Forðastu að láta barnið verða vart við tortryggni eða áhyggjur tengdar skólanum.
  •     Ef barnið getur ekki leyst fram úr einhverjum vanda segðu því þá að þú og skólinn muni vinna saman að lausn þess eftir því sem hægt er.
  •     Fáðu umsjónarkennara í lið með þér.
  •     Lestu vel allan póst og upplýsingar frá skólanum.
  •     Farðu reglulega inn á síðu barnsins þíns í Mentor.
  •     Upplýstu skólann um atburði eða breytingar sem þú telur að geti haft áhrif á barnið þitt.
  •     Gefðu þér tíma til að sjá barnið þitt í skólanum a.m.k. einu sinni á önn í samráði við kennara.

Samskipti

Í huga barnsins skiptir miklu máli að eignast vini í skólanum og njóta viðurkenningar hópsins.

Foreldrar geta stutt barnið með því að:

  •     leggja sig fram um að kynnast félögum barnsins og foreldrum þeirra,
  •     hjálpa barninu til að koma auga á styrkleika félaga sinna fremur en veikleika,
  •     hvetja barnið til að koma vel fram við alla og tala af virðingu um félaga sína,
  •     leggja áherslu á samkennd,
  •     hafna einelti og niðrandi framkomu m.a. á vefnum,
  •     hjálpa barninu til að leysa úr ágreiningi ef það er á valdið þess,
  •     leita aðstoðar skólans þegar þörf er á,
  •     taka þátt í félagsstarfinu með bekknum og skólanum.