• Gæði í þjónustu dagforeldra í Reykjavík
Reykjavíkurborg hefur á síðustu árum útbúið sérstök gæðaviðmið um starfsemi leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva.  Markmiðið með slíkum viðmiðum er að auka gæði þjónustu við börn í Reykjavík og gæta þess að jafnræði sé í umhverfi þeirra og umönnun.  Gæðaviðmiðin hafa verið þróuð í góðri samvinnu við leikskólakennara, grunnskólakennara og frístundaráðgjafa.  
 
Á árinu 2015 tóku fulltrúar félaga dagforeldra í Reykjavík þátt í skilgreiningu gæðaviðmiða fyrir daggæslu í heimahúsum þar sem unnið var út frá því sem skilgreint er í reglugerð um daggæslu í heimahúsum en það útskýrt nánar og sett fram á notendavænan hátt, bæði með dagforeldra og foreldra barna í huga. Öllum dagforeldrum í Reykjavík gafst kostur á að koma með athugasemdir við viðmiðin í gegnum félög dagforeldra.
 
Dagforeldrar geta nýtt sér gæðaviðmiðin við að skipuleggja starfið eða meta hvar þeirra daggæsla stendur. Foreldrar geta nýtt sér viðmiðin til að skilja betur hver markmið með daggæslu í heimahúsum eru og hvaða atriði er mikilvægt að hafa í huga við leit að dagforeldri fyrir barnið.