Gildi frístundastarfs fyrir börn og unglinga

Frítíminn er í nútímaþjóðfélagi vettvangur uppeldisstarfs þar sem áhersla er lögð á aukinn þroska og færni með fjölbreyttum viðfangsefnu
m og reynslunámi. Á vettvangi frítímans er lögð áhersla á að þjálfa samskiptafærni, auka félagsfærni, styrkja sjálfsmynd og efla samfélagslega virkni og þátttöku.

Í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er kveðið á um rétt barna til tómstunda og skapandi starfs:
31. gr.

1. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til hvíldar og tómstunda, til að stunda leiki og skemmtanir sem hæfa aldri þess, og til frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum.

2. Aðildarríki skulu virða og efla rétt barns til að taka fullan þátt í menningarog listalífi, og skulu stuðla að því að viðeigandi og jöfn tækifæri séu veitt til að stunda menningarlíf, listir og tómstundaiðju.

Í starfi frístundamiðstöðvanna er unnið mikilvægt forvarnarstarf og börnum og ungmennum skapaður jákvæður valkostur í frítímanum með fagfólki, öruggu umhverfi og innihaldsríku starfi.

Fyrir börn og ungmenni hefur frítíminn þríþætt gildi:

Afþreyingargildi

Afþreying hefur á síðustu árum fengið neikvæða merkingu, líkt og um sé að ræða neikvæða hegðun sem ekki sé ákjósanleg fyrir ungt fólk. Að skemmta sér, hlæja og drepa tímann í góðum hópi án sýnilegs markmiðs er mikilvægur hluti af lífinu og nauðsynlegt að skapa börnum, unglingum og ungu fólki tíma og aðstöðu tilafþreyingar undir þessum formerkjum. Börn og unglingar hafa þörf fyrir að tilheyra hópi, eiga í samskiptum og njóta samverunnar við jafningja og mikilvæga aðra en rannsóknir sýna mikilvægi þess að börn og unglingar geti litið til annarra fullorðinna, auk foreldra sinna, sem fyrirmynda og myndað við þá tengsl.

Menntunargildi

Í frítímanum fást börn og ungmenni við fjölbreytt og skapandi verkefni þar sem lögð er áhersla á virkni, frumkvæði og sköpun. Þátttaka í slíkum verkefnum færir unga fólkinu reynslu og þekkingu sem þau búa að og geta yfirfært yfir á samfélagið. Hér er ekki um formlegt nám að ræða heldur er lögð áhersla á reynslunám og óformlega menntun.

Forvarnargildi

Þátttaka í skipulögðu félagsstarfi í umsjá fagfólks í öruggu umhverfi hefur mikið forvarnargildi. Með því að bjóða börnum og ungu fólki upp á jákvæð viðfangsefni í frítímanum með sterkum fyrirmyndum aukast líkur á því að þau kjósi heilbrigðan lífstíl og forðist áhættuhegðun.

Afþreyingar-, menntunar-, og forvarnargildi frítímans skarast alla jafna í starfsemi á vegum frístundamiðstöðvanna. Sköpun, félagsleg virkni og frjáls leikur hefur afþreyingargildi en hefur að sama skapi bæði forvarnar- og menntunargildi. Þegar börn í frístundaheimili horfa á skemmtilega bíómynd skapast vettvangur fyrir umræður um efni myndarinnar þar sem færi gefst á að ræða gildi og viðmið samfélagsins og skoðanir hvers og eins. Það má jafnframt nýta myndina til að þjálfa framsögn, segja frá myndinni eða afmörkuðum þáttum hennar. Í félagsmiðstöðvastarfinu er dansleikur í sjálfu sér afþreying en um leið eru unglingar að þjálfa samskiptafærni sína, læra „vinsælustu sporin“ af jafningjahópnum og eru í öruggu umhverfi án vímugjafa undir umsjón fagfólks. Þegar skipulagning og framkvæmd dansleiksins er svo einnig í höndunum unglinganna sjálfra öðlast þau reynslu af verkefnisstjórnun og þjálfa samstarf og samskipti.

Það má því segja að það skipti mestu máli hvaða hugmyndafræði og markmið liggja að baki starfinu og hvernig staðið er að framkvæmd viðfangsefna frekar en að eingöngu sé horft á viðfangsefnið sjálft.