Börnum er jafn eðlislægt að hreyfa sig og að tjá sig. Því er hreyfingu gert hátt undir höfði í öllu skóla- og frístundastarfi.

Hreyfing hefur margþætt gildi fyrir heilsu og líðan barna og ungmenna sem eru að taka út þroska. Í gegnum hreyfingu, leik og samveru ná þau auðveldlega sambandi hvert við annað sem og fullorðna og þroska samskipta- og félagshæfni sína. Þegar börn upplifa ánægju og gleði í tengslum við hreyfingu, eykst vellíðan og vinnugleði sem getur haft áhrif á framtaksemi þeirra og færni í leik og starfi.

Síðustu áratugi hefur nánasta umhverfi barna breyst mikið. Má þar nefna nýja tölvutækni sem dregur að sér athygli barna og unglinga og þau nýta í vaxandi mæli til samskipta og leikja. Þetta hefur oft í för með sér aukið hreyfingaleysi og stundum minni samveru með fjölskyldu og vinum.

Offita er vaxandi vandamál í samfélagi okkar í dag og er merki um líkamlega vanlíðan. Athuganir sem gerðar hafa verið á líkamsþyngd barna sýna að um þriðjungur þeirra sem eru of þung við tveggja ára aldurinn eru það líka þegar þau ná sex ára aldri. Langflest börn sem eru of þung við upphaf skólagöngu eru einnig of þung þegar þau ná fullorðinsaldri. Helstu orsakir þessa vanda er að dregið hefur úr daglegri hreyfingu.

Barn sem elst upp í örvandi umhverfi með möguleikum á leikjum, útivist, tækifæri til að stunda íþróttir o.s.frv. fær reynslu til að byggja upp góða hreyfifærni. Þá hefur það sýnt sig að þeir sem stunda íþróttir eða líkams- og heilsurækt í æsku eru líklegri til að halda því áfram á fullorðinsárum.

Hreyfingarleysi er talinn einn helsti áhættuþáttur fyrir ýmsum sjúkdómum í nútíma samfélagi, einkum hjarta- og æðasjúkdómum. Samkvæmt leiðbeiningum frá Landlæknisembættinu eiga börn og unglingar að hreyfa sig í a.m.k. 60 mínútur daglega en ekki endilega stanslaust, heldur dreifa því yfir daginn.

Dæmi um gildi hreyfingar fyrir heilsu og vellíðan barna og unglinga

Hreyfing veitir líkamlegan og andlegan styrk til að takast á við áskoranir daglegs lífs og hjálpar okkur að hvílast betur. Það er því ekki að ástæðulausu sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur útnefnt 10. maí ár hvert alþjóðadag hreyfingar.

  • Betra þol og vöðvastyrkur
  • Betri beinheilsa
  • Stuðlar að heilsusamlegra holdafari
  • Minni einkenni þunglyndis
    (Byggt á ritgerð eftir Daggrós Stefánsdóttur og Eddu Rún Gunnarsdóttur og Lýðheilsustöð)

Byggt á efni af vef landlæknisembættisins