Lausnaleitarnám er náms- og kennsluaðferð sem byggir á umræðum og þekkingarleit til að leysa raunveruleg vandamál. Þessi aðferð á að stuðla að sjálfstæði í námi og búa nemendur undir að takast á við og leysa flókin viðfangsefni. Þeir þurfa því að brjóta mál til mergjar og um leið afla sér viðbótarþekkingar svo að þeir geti fundið viðunandi lausn. Sú reynsla og þekking á að koma þeim til góða þegar að því kemur að þeir þurfi að leysa sambærileg vandamál í raunveruleikanum. Um er að ræða námsleið sem ætlað er að stuðla að dýpri skilningi á ákveðnu viðfangsefni í stað hefðbundinna efnistaka.

  • Hvernig ætti ég að fara að því?
  • Hvað er ég að fara að gera?
  • Tókst mér að gera það sem ég ætlaði mér?

Forsenda þess að ofangreindar lykilspurningar komi upp í huga nemenda þegar tiltekið vandamál er lagt fyrir þá er að viðfangsefnið sé ögrandi, óvenjulegt, nýstárlegt eða nægilega flókið til að vekja áhuga þeirra og löngun til að uppgötva og lyfta hulunni af; velta fyrir sér og skoða; úthugsa og rannsaka það sem um ræðir, sem að lokum beinir þeim á þá braut sem þeir telja rétta (Wee, Kek og Sim, 2001).

Lausnaleitarnám fer fram í litlum hópum oftast 5-8 nemenda þar sem kennarinn er fyrst og fremst leiðbeinandi um aðferðina, vinnubrögð og leiðir en ekki um lausn vandamálsins sem slíks.

Sjá frekari upplýsingar á heimasíðu Þórunnar Óskarsdóttur