• Börn að leik.

Leikskólinn er fyrir öll börn, óháð andlegu og líkamlegu atgervi, menningu og trú. Foreldrar geta sótt um leikskóla strax og kennitala barns hefur verið skráð. Börn eru skráð á biðlista eftir leikskólaplássi við eins árs aldur og raðast þau á listann eftir fæðingardegi og ári. Borgaryfirvöld hafa þá stefnu að tryggja öllum börnum leikskóladvöl á því ári sem þau verða tveggja ára.

Foreldrar geta sótt um og valið þann leikskóla sem þeir telja að henti þeim og barni þeirra best. Telji þeir það þjóna betur hagsmunum barnsins að sækja leikskóla utan heimahverfis geta þeir sótt um hvaða leikskóla sem er í borginni.

Almennur opnunartími leikskóla er frá kl. 07:30 til 17:00 og börn geta verið í leikskólanum í 4-9 ½ klukkustund á dag.

Upplýsingar um gjaldskrá leikskóla.

Leikskólagjald fer eftir því hversu lengi barnið er í leikskólanum dag hvern. Reykjavíkurborg niðurgreiðir gjöld fyrir leikskóladvöl.

Innritun í leikskóla fer fram í gegnum Rafræna Reykjavík.

Flutningur á milli leikskóla

Sótt er um flutning milli leikskóla í gegnum Rafræna Reykjavík. Foreldrar barna í sjálfstætt starfandi leikskólum sem gert hafa þjónustusamning við Reykjavíkurborg þurfa að sækja um flutning, en samkvæmt 5. grein þjónustusamnings falla börn út af biðlista í almenna leikskóla við undirritun dvalarsamnings.

Foreldrum er bent á að sækja tímanlega um flutning  milli leikskóla en þeir eiga sér aðallega stað á tímabilinu júní-september.

Skilyrði fyrir leikskóladvöl er að lögheimili barns sé í Reykjavík og að foreldrar barnsins séu ekki í vanskilum við skóla-og frístundasvið. Farið er eftir upplýsingum í þjóðskrá um búsetu og hjúskaparstöðu forráðamanna.

Flutningur til Reykjavíkur

Foreldrar sem hyggjast flytja til Reykjavíkur geta sótt um leikskólapláss en barn getur ekki hafið leikskólagöngu fyrr en lögheimili hefur verið flutt. Úthlutun leikskólaplássa á sér stað á tímabilinu mars til maí ár hvert og eru foreldrar hvattir til að senda inn umsókn fyrir lok febrúar. Eigi foreldrar ekki möguleika á að flytja lögheimili fyrir þann tíma geta þeir haft samband við innritunarfulltrúa og látið vita hvenær flutningur er fyrirhugaður. Námsmenn í lánshæfu námi þurfa að framvísa skólavottorði og staðfestingu frá heimasveitarfélagi um greiðslu óski þeir eftir undanþágu frá skilyrði um lögheimili í Reykjavík.

Flutningur frá Reykjavík

Í samkomulagi milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá 3. júní 1999 er gert ráð fyrir því að hægt sé að sækja um framlengingu á leikskóladvöl vegna barna sem flytja milli sveitarfélaga. Hægt er að sækja um framlengingu á leikskóladvöl í allt að sex mánuði frá flutningi lögheimilis. Heimilt er að lengja tímann umfram sex mánuði ef barn er í elsta árgangi eða ef það nýtur sérþjónustu í leikskólanum