Öll börn eiga rétt á kennslu við hæfi í sínum hverfisskóla og að þar stendur þeim til boða aðstoð vegna sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar, samkvæmt lögum um grunnskóla, nr.91/2008. Allt að fimmtungur nemenda í grunnskólum borgarinnar fær sérkennslu af einu eða öðru tagi á hverju skólaári, flestir vegna lestrar- og skriftarörðugleika.

Grunnskólar í Reykjavík fá fjárúthlutun vegna barna með fatlanir og miklar sérþarfir í námi, m.a. vegna geðraskana og annarra alvarlegra hegðunarvandamála.

Telji foreldrar að barn þeirra fái ekki kennslu við hæfi er nauðsynlegt að ræða það við umsjónarkennara. Hér skiptir mestu máli að foreldrar og skóli standi saman að því að greina orsök vandans og finna viðeigandi lausnir, með aðstoð annarra sérfræðinga ef þurfa þykir.