Með samræmdum könnunarprófum í grunnskólum er átt við próf sem metur sömu kunnáttu og færni með sama hætti og við sambærilegar aðstæður. Allir nemendur í 4. 7. og 10. bekk grunnskóla taka samræmd próf í íslensku og stærðfræði og að auki í ensku í 10. bekk. Prófað er í september.
Umsjón með samræmdum könnunarprófum er hjá Menntamálastofnun.
Tilgangur samræmdra könnunarprófa er að:
- kanna að hvaða marki námsmarkmiðum aðalnámskrár í tilgreindri námsgrein eða námsþætti hafi verið náð,
- vera leiðbeinandi um áherslur í kennslu fyrir einstaka nemendur,
- veita nemendum, foreldrum og skólum upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemenda,
- veita upplýsingar um hvernig skólar standa í þeim greinum sem prófað er úr miðað við aðra skóla landsins.
Skimanir
Lesskimun er lögð fyrir nemendur í 2. bekk.
Stærðfræðiskimun,Talnalykill er lagður fyrir nemendur í 3. bekk.
Flestir grunnskólar í borginni hafa aðgang að Skólapúlsinum en hann leggur reglulega fyrir kannanir á virkni og líðan nemenda
og skóla og bekkjarbrag í 6. – 10. bekk.
PISA-rannsóknir
Pisa er umfangsmikil alþjóðleg rannsókn á hæfni og getu 15 ára nemenda í lestri, náttúrufræði, stærðfræði og þrautalausn.
Rannsóknin er á vegum OECD (Efnahags- og framfarastofnunarinnar). PISA er samstarfsverkefni margra þjóða og voru þær 66 á árinu 2012. Námsmatsstofnun sér um framkvæmd rannsóknarinnar á Íslandi fyrir hönd menntamálaráðuneytisins.