Samvinnunám er yfirheiti á margar kennsluaðferðir sem hafa hópvinnu að leiðarljósi. Eftirfarandi skilgreining nær vel yfir það sem samvinnunám felur í sér:

- Við samvinnunám vinna nemendur í hópum og eru samábyrgir fyrir því að leysa viðfangsefni sín og geta í raun ekki lokið þeim nema allir leggi sinn skerf til vinnunnar. Þeir eru því í raun háðir vinnuframlagi hvers annars, rétt eins og iðulega gerist í daglegu lífi.

Samvinnunám hefur ætíð félagsleg markmið ekki síður en fræðileg og margar rannsóknir hafa sýnt að það skilar nemendum góðum árangri í námsgreinum og er ekki síður vel fallið til að kenna þeim ýmsa félagslega færni s.s. samvinnu, tillitssemi, hjálpsemi, þolinmæði og getu til að leysa úr ágreiningi. (Jón Baldvin Hannesson og Rúnar Sigþórsson, 2000).

Sé fjölbreytileiki nemenda nýttur í samvinnunámi og verkefnin gerð reglulega yfir skólaárið, fá nemendur frekar tækifæri til að efla félagsfærni sína. Nemendur ná þá að vinna saman sem einstaklingar, sem hluti af hóp og sem samstarfsfólk við að ná sameiginlegum markmiðum. Sé samvinnustarfi beitt í kennslu þurfa nemendur að mynda sér skoðanir, setja þær fram og átta sig á að hægt er að sjá hlutina frá ólíkum sjónarhornum því aðrir þurfa ekki endilega að hafa sömu skoðun og þeir sjálfir. (Guðrún Pétursdóttir, 2003:18) 

Sjá einnig heimasíðu Ingvars Sigurgeirssonar.