Stuðningur vegna vanda í leikskóla

Ef upp koma vandamál vegna barns í leikskóla skulu foreldrar leita til deildarstjóra. Bestur árangur næst jafnan þegar foreldrar og starfsfólk vinna saman að lausn mála. Telji foreldrar samstarfið við deildarstjóra ekki skila fullnægjandi árangri geta þeir leitað til leikskólastjóra. Einnig geta foreldrar leitað til annarra sérfræðinga um skólamál sem starfa á þjónustumiðstöð hverfisins, en þær þjónusta bæði einstaklinga og fjölskyldur. Komi upp vandamál í samstarfi foreldra og leikskóla er hægt að hafa samband við Sigríði Marteinsdóttur leikskólaráðgjafa. 

Stuðningur vegna vanda í grunnskóla

Ef upp koma vandamál vegna barns í grunnskóla skulu foreldrar ávallt leita til umsjónarkennara. Bestur árangur næst jafnan þegar foreldrum og kennara lánast að vinna saman að lausn mála. Telji foreldrar samstarfið við umsjónarkennarann ekki skila fullnægjandi árangri geta þeir leitað til skólastjóra eða staðgengils hans. Skólastjóri hefur sér til aðstoðar nemendaverndarráð og stundum einnig lausnarteymi. Einnig geta foreldrar leitað til annarra sérfræðinga um skólamál sem starfa á þjónustumiðstöð hverfisins sem veita einstaklingum og fjölskyldum þeirra þjónustu. Komi upp vandamál í samstarfi forelda og skóla geta foreldrar leitað til skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur en þar starfar ráðgjafi, Héðinn Pétursson, sem vinnur að viðeigandi úrræðum fyrir nemendur með fjölþættan vanda.

Stuðningur vegna vanda í frístundastarfi

Ef upp koma vandamál í frístundastarfi skulu foreldrar ávallt leita til verkefnastjóra/frístundaráðgjafa frístundaheimila eða félagsmiðstöðva. Ef vandi barnsins snýr bæði að námi og leik er farsælast að vinna málið í samstarfi foreldra, kennara og frístundaráðgjafa. Fái  foreldrar ekki þá úrlausn sem þeir óska eftir er nauðsynlegt að leita til forstöðumanns eða deildarstjóra á frístundamiðstöðinni. Komi upp vandamál í samstarfi foreldra og frístundaheimila er hægt að hafa samband við Sigrúnu Sveinbjörnsdóttur eða Huldu Valdísi Valdimarsdóttur verkefnastjóra á frístundahluta fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs.

Ýmis félagasamtök aðstoða foreldra við lausn persónulegra mála. Má þar benda á Sjónarhól og ADHD samtökin. Einnig veita SAMFOK og Heimili og skóli foreldrum upplýsingar og ráð.

Ef foreldrar verða ósáttir við afgreiðslu máls hjá skóla- og frístundasviði geta þeir samkvæmt stjórnsýslulögum vísað máli sínu til úrskurðar í menntamálaráðuneytinu. Ef um eineltismál er að ræða, sem ekki næst ásættanleg lausn um innan sveitarfélagsins, má vísa málinu til fagráðs sem starfar á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Hvernig geta foreldrar stutt barn sitt í vanda?

Gagnkvæmt traust og virðing foreldra og skóla er forsenda þess að börnum farnast vel í námi. Þess vegna er afar mikilvægt að foreldrar leiti til skólans ef efasemdir eða tortryggni vaknar hjá þeim. Foreldrar ættu að forðast að börn þeirra verði vör við efasemdir þeirra gagnvart skólanum, kennara eða námsefni. Eðlilegast er að leita með áhyggjur sínar til umsjónarkennara. Kennari og foreldrar þurfa að eiga samræðu sem miðar að því að finna lausn fyrir og með barninu sem aðilar verða ásáttir um. Það skilar miklu betri árangri að vinna að sameiginlegri lausn með skólanum en að setja fram kröfur um fyrirfram ákveðin úrræði.

Verklagsreglur við lausn alvarlegs vanda

Því miður eiga ekki öll börn farsæla skólagöngu og stundum er vandi einstakra nemenda alvarlegri en svo að hann verði leystur í samstarfi kennara og foreldra. Oft koma skólastjórar að lausn slíkra mála t.d. með aðstoð nemendaverndarráðs. Aðrir starfsmenn, s.s. námsráðgjafi eða sérfræðingar þjónustumiðstöðva eru einnig til aðstoðar.

Þegar lausn mála verður mjög flókin er mikilvægt að fylgja ákveðnum reglum Reykjavíkurborgar við vinnslu mála þar sem vandi nemenda er alvarlegur og fjölþættur. Reglurnar skapa vinnulag sem tryggir skilvirka samvinnu stofnana þannig að hlutverk aðila séu skýr og markmið skilgreind.

Góður bekkjarbragur

Góður bekkjabragur er afar dýmætur og stuðlar að því að allir tilheyra hópnum og búa við öryggi. Þar geta foreldrar haft mikil áhrif. Allir foreldrar ættu að hvetja börn sín til að sýna skólafélögum sínum virðingu, samkennd og ábyrgð. Foreldrar þurfa stöðugt að vera börnum sínum góðar fyrirmyndir m.a. þegar þeir ræða um skólann og skólafélaga þeirra. Góð samstaða foreldrahópsins getur einnig skipt sköpum varðandi bekkjarbrag og samræmingu regla m.a. í tengslum við afmælisboð.