• Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn
Í sumar verður fjölbreytt framboð af afþreyingu og fræðslu fyrir börn og unglinga í Reykjavík. Finna má upplýsingar um sumarstarfið á frístundavefnum www.fristund.is, s.s. um starf frístundamiðstöðva, siglinganámskeið, sumarbúðir, íþróttanámskeið, reiðnámskeið og margt fleira sem í boði er.
 
Í sumarstarfi frístundaheimilanna, sumarfrístund, er boðið upp á vikunámskeið kl. 9-16, en hægt að bæta við viðbótarstund kl. 8-9 og 16-17. Boðið er upp á fjölbreytt og skemmtileg viðfangsefni, farið í vettvangsferðir og mikið lagt upp úr útivist. Skráning í sumarfrístund hófst miðvikudaginn 27. apríl.

Félagsmiðstöðarnar í Reykjavík standa fyrir sumarsmiðjum fyrir 10-12 ára börn. Þær standa yfir part úr degi, heilan dag eða í nokkra daga í senn. Útfærslur eru fjölbreyttar og viðfangsefni tengjast m.a. sköpun, útivist, sjálfbærni og hreyfingu. Þátttökugjald fer eftir því hvort um er að ræða efniskostnað, samgöngukostnað og tímalengd viðkomandi smiðju. Skráning í sumarsmiðjur fyrir 10-12 ára hófst miðvikudaginn 16. maí. 

Félagsmiðstöðvarnar verða opnar fyrir 13-16 ára. Upplýsingar um opnunartíma verður að finna á heimasíðum og fésbókarsíðum félagsmiðstöðvanna. Unglingum sem voru að klára 8., 9. og 10. bekk standa til boða störf við Vinnuskólann. Nánari upplýsingar er að finna á vefnum www.vinnuskoli.is

Skráning
Skráning í sumarstarf á vegum Reykjavíkurborgar fer fram á vefnum https://sumar.fristund.is. Athugið að innskráning er á island.is þar sem hægt er að nota Íslykil eða Rafræn skilríki í síma.

Skráning í sumarstarf frístundaheimilanna, sértækt félagsmiðstöðvastarf og siglinganámskeið í Siglunesi þarf að fara fram fyrir kl. 12:00 á föstudögum eigi barn að byrja á mánudeginum á eftir. Skráning á dýranámskeið í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum þarf að fara fram á miðvikudegi í vikunni áður en námskeið hefst. Foreldrum er bent á að skrá börn sín tímanlega þar sem námskeiðin geta fyllst fljótt.

 

Ef foreldrar eru af erlendum uppruna og eiga lögheimili í Reykjavík (annað foreldri eða báðir) og barnið hefur búið á Íslandi skemur en tvö ár, eru þrjár vikur án endurgjalds í sumarfrístund/sértækum félagsmiðstöðvum/sumarsmiðjum gegn umsókn þar um. Sótt er um skriflega til viðkomandi frístundamiðstöðar. Þessi afsláttur gildir ekki fyrir börn sem eru með lögheimili erlendis og koma tímabundið hingað til lands yfir sumarmánuðina.

Athugið að ef foreldrar geta ekki nýtt sér rafræna innritun geta þeir farið á frístundamiðstöðvar borgarinnar (helst fyrir hádegi) og fengið aðstoð við skráningu. Ekki er hægt að skrá börn í sumarstarf Reykjavíkurborgar í gegnum síma en hægt er að fá leiðbeiningar símleiðis hjá þjónustuveri Reykjavíkurborgar í síma 411-1111 ef foreldrar eru við nettengda tölvu.
 
Skráning í sumarstarf hjá öðrum en Reykjavíkurborg fer fram hjá viðkomandi félagi/aðila.

 

Vinnuskólinn
Vinnuskóli Reykjavíkur býður nemendum úr 8., 9. og 10. bekkjum grunnskóla upp á sumarstörf. Skráning í skólann er hafin og öllum unglingum sem skráðir verða mun bjóðast starf. Foreldrar skrá sína unglinga á heimasíðu Vinnuskólans, http://vinnuskoli.is og þar má jafnframt finna nánari upplýsingar um starfið.  

Foreldrar athugið!
Vegna Covid-19 faraldursins geta orðið breytingar á sumartilboðum borgarinnar í samræmi við ráðleggingar almannavarna og sóttvarnarlæknis hverju sinni. Ef til breytinga kemur verða foreldrar upplýstir við fyrsta tækifæri.