Á unglingastigi er gert er ráð fyrir að valgreinum fjölgi töluvert. Mun meira er um sérhæfða faggreinakennara. Heildarskólatími í 8. – 10. bekk er 4.400 mín. á viku.
Próf
Samræmd könnunarpróf eru lögð fyrir í 10. bekk.
Sjá nánar á heimasíðu Námsmatsstofnunar.
Félagsmiðstöðvarstarf
Félagsmiðstöðvarstarfið byggir á hugmyndafræði um unglingalýðræði. Lögð er áhersla á virkni, þátttöku og ábyrgð. Kosið er í svokallað unglingaráð og í því sitja þeir sem hafa boðið sig fram og eru lýðræðislega kjörnir. Mikilvægasta hlutverk unglingaráðs er að virkja sem flesta nemendur til þátttöku í starfi félagsmiðstöðvarinnar og standa fyrir og skipuleggja dagskrá félagsmiðstöðvarinnar. Unglingaráð starfar í samræmi við settar starfsreglur og er málsvari unglinganna. Markmiðið er að þjálfa unglinga í að taka sjálfstæðar ákvarðanir og taka afleiðingum þeirra. Jafnframt styrkja þessi vinnubrögð sjálfsmyndina, þjálfa unglinga í að temja sér víðsýni og gagnrýna hugsun. Þessi hugmyndafræði þjálfar unglinga einnig í þeim vinnubrögðum sem tíðkast almennt í lýðræðilegu samfélagi og er því góð þjálfun fyrir lífið.
Opið starf í félagsmiðstöðvum
Ýmis frístundatilboð í boði sem opin eru öllum. Unglingarnir geta komið og spilað billjard, borðtennis,bandí, hlustað á tónlist, spjallað við starfsfólkið o.s.frv. Meginmarkmiðið er að skapa unglingum vettvang til að hittast á hlutlausum og öruggum stað þar sem þeir geta komið á eigin forsendum og verið virkir á þann hátt sem hentar þeim hverju sinni undir handleiðslu fullorðinna.
Hópa- og klúbbastarf í félagsmiðstöðvum
Hópastarf gefur unglingum möguleika á að starfa í minni hópum að ákveðnum áhugatengdum verkefnum með aðstoð starfsmanns. Einnig getur hópurinn verið árgangaklúbbur og/eða stelpu- og strákaklúbbur þar sem dagskráin er fjölbreyttari og ekki miðuð við afmarkað þema. Ýmiss konar formleg og óformleg fræðsla er fastur liður í hópastarfinu. Hópar geta starfað í lengri eða skemmri tíma, allt eftir áhuga unglinganna og viðfangsefnum hópastarfsins hverju sinni.