• Foreldrar í skólastarfi

Rannsóknir staðfesta að barnið tekur meiri framförum og er líklegra til að ná betri árangri hvort heldur í leikskóla, grunnskóla eða frístundastarfi ef gott samstarf er á milli foreldra og starfsfólks. Foreldrar hafa því mikil áhrif á námsárangur, virkni og líðan barna sinna með viðhorfum sínum og þátttöku.

Með virkri hlutdeild foreldra í skóla- og frístundastarfi barna sinna og með því að þeir miðla greinargóðum upplýsingum um barnið til starfsfólks, verður áhugi barnanna meiri, þau fá aukið sjálfstraust og þeim líður betur. Einnig er minna um brottfall þegar líður á skólagöngu, minni líkur eru á vímuefnanotkun og ofbeldishegðun.
Margvísleg ráð eru til fyrir foreldra til að styðja við barnið í námi og starfi

Mikilvægi foreldra í menntun barna sinna

Enginn einn einstakur þáttur hefur eins mikil áhrif á námsárangur barna og líðan þeirra í skólanum eins og viðhorf og stuðningur foreldra Hlutdeild foreldra í menntun barna sinna hefur tvöfalt meira forspárgildi um námsárangur en félagsleg staða. Þegar skólar stuðla skipulega að samstarfi við foreldra eru dæmi um að áhrif þeirra séu allt að sexfalt meiri en aðrir áhrifaþættir. Sjá 15 mikilvæg ráð til skólaforeldra.

Forsjárforeldrar, forsjárlausir foreldrar og skólinn

Forsjárforeldrar barns í grunnskóla eiga rétt á upplýsingum um skólastarfið og skólagöngu barna sinna.

Það foreldri sem ekki hefur forsjá barns hefur rétt á að óska eftir aðgangi að skriflegum gögnum sem varða barn þess í skólanum. Sá réttur felur ekki í sér heimild til að fá upplýsingar sem varða hagi forsjárforeldris.

Makar þeirra foreldra sem fara einir með forsjá barns geta öðlast rétt til að fá upplýsingar um barnið frá skólanum, ef samið hefur verið um að þeir fari með forsjá barnsins ásamt makanum. Sama á við um þá sem eru í sambúð, enda hafi skráð sambúð í þjóðskrá staðið samfleytt í eitt ár. Þetta gildir eingöngu meðan sambúðin varir. Aðrir hafa ekki rétt á munnlegum eða skrifalegum persónuupplýsingum um barnið nema með samþykki forsjárforeldris.

Viðmið um gæði í samstarfi skóla og skólaforeldra

Grunnskólar Reykjavíkurborgar hafa sett sér viðmið um uppbyggingu foreldrasamstarfs. Sjá viðmið um gæði foreldrasamstarfs.   

Hafðu samband

Ábendingum um það sem betur má fara í skóla- og frístundastarfi má koma á framfæri á sfs@reykjavik.is

Frekari upplýsingar

Sjá upplýsingar fyrir erlenda foreldra um leikskólastarf, s.s. bæklinginn Velkominn til samstarfs um leikskólabarnið sem til er á nokkrum tungumálum.