• Skólastarf

Það er stór stund í lífi barns og fjölskyldu þess þegar það sest í fyrsta sinn á skólabekk í grunnskólanum. Gott samstarf foreldra og skóla, þar sem gagnkvæmt traust ríkir og upplýsingum er miðlað, hefur úrslitaáhrif um velferð barnsins.

Samræmi í viðhorfum og væntingum fullorðna fólksins

Það veitir börnum mikið öryggi þegar þau finna samræmi í viðhorfum og væntingum foreldra og skólans til þeirra. Þess vegna þurfa foreldrar og starfsmenn skóla að gefa sér tíma til að ræða saman um megináherslur í uppeldi og menntun barnsins.

Áherslur í námi

Í 1. – 4. bekk er megináhersla lögð á lestur og læsi, stærðfræði og list- og verkgreinar. Kennslutími samkvæmt námskrá er 4.800 mín. á viku. Algengt er að umsjónarkennari, einn eða fleiri, kenni flestar námsgreinar.

Skimanir og próf

Samræmdar lesskimanir eru lagðar fyrir alla nemendur í grunnskólum Reykjavíkur í 2. bekk og í stærðfræði í 3. bekk. Samræmd könnunarpróf eru lögð fyrir í 4. bekk.

Frístundaheimili 

Á veturna eru frístundaheimilin opin eftir að skóladegi lýkur til kl. 17.00 alla virka daga. Á foreldradögum, starfsdögum og í jóla- og páskafríum skólanna eru frístundaheimilin opin frá kl. 8.00 nema annað sé tekið fram. Óskað er sérstaklega eftir skráningu fyrir þá daga á hverjum stað fyrir sig og þarf að greiða aukalega fyrir dvöl fyrir hádegi þá daga.

Vetrarstarf frístundaheimilanna hefst daginn eftir skólasetningu og síðasti starfsdagurinn er alla jafna daginn fyrir skólaslit.

Sótt er um dvöl á frístundaheimili í Völu frístund. 

Til að sækja um frístundaheimili fyrir barn þarf að fylla inn upplýsingar um tengiliði og óskir um vistunartíma. 

Ef foreldrar geta ekki nýtt sér rafræna innritun geta þeir farið á frístundamiðstöðvar (helst fyrir hádegi) og á þjónustumiðstöðvar hverfanna og fengið aðstoð með skráningu. Ekki er hægt að skrá börn á frístundaheimili í gegnum síma. Þjónustumiðstöðvar, frístundamiðstöðvar og Símaver Reykjavíkurborgar (s. 411 1111) geta þó leiðbeint símleiðis ef forráðamenn eru við nettengda tölvu.

Ekki er hægt að tryggja öllum börnum dvöl í frístundaheimili fyrr en tekist hefur að manna stöður frístundaleiðbeinenda/ráðgjafa. Umsóknum verður raðað eftir því hvenær þær berast.

Hægt er að segja upp dvöl á frístundaheimili á Völu frístund, en einnig með því að hafa samband við forstöðumann frístundaheimilis.