sunnudagur, 8. mars 2015

Frá árinu 2003 hafa verið framin 11 morð á Íslandi sem rekja má til heimilisofbeldis en það er um 60% morða sem framin voru á þessu tímabili. Þetta er eitt af því sem fram kemur í bæklingnum kynlegar tölur sem gefinn er út af mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar í tilefni af 8. mars, alþjóðlegum baráttudegi kvenna fyrir friði og jafnrétti.

Bæklingurinn hefur að geyma tölfræðilegar upplýsingar þar sem varpað er ljósi á ólíka stöðu karla og kvenna eins og hún birtist á ýmsan hátt í borginni og á landinu.

Í ár er sjónum beint annars vegar að kosningum í tilefni af 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna á Íslandi og hins vegar að ofbeldi en Reykjavíkurborg og Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vinna að átaksverkefni gegn heimilisofbeldi.

Margt athyglisvert kemur fram í bæklingnum. Sem dæmi má nefna að engar marktækar upplýsingar eru til um ofbeldi gegn fötluðu fólki en erlendar rannsóknir sýna að fatlað fólk verður fyrir ofbeldi í mun meira mæli en ófatlað fólk. Fatlaðar konur eru líklegri til að verða fyrir ofbeldi en nokkur annar hópur samfélagsins.

Tvær töflur eru um morð sem eru skilgreind sem heimilisofbeldismál. Þar kemur fram að frá árinu 2003 hafa verið framin 11 morð sem eru heimilisofbeldismál og er það 60% þeirra morða sem framin hafa verið á Íslandi á þessum tíma. Þessar upplýsingar byggja ekki á dómsmálum heldur þeim málum sem lögreglan telur morðmál og þar sem kæra hefur verið lögð fram. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að vinna markvisst gegn ofbeldi með þjónustu við brotaþola og gerendur.

Ef litið er til síðustu borgarstjórnarkosninga árið 2014 kusu fleiri konur en karlar í aldurshópnum yngri en 60 ára, hlutfallið er jafnt milli kynja í aldurshópnum 60 til 64 ára en eftir þann aldur eru fleiri karlar að kjósa en konur. Hlutfall frambjóðenda sem voru konur og innflytjendur voru í þessum sömu kosningum 3% og hlutfall karla sem eru innflytjendur í framboði 2%. Það er ljóst að þetta endurspeglar ekki þann fjölda innflytjenda sem er í Reykjavík en konur sem teljast innflytjendur eru 12% kvenna í borginni og karlar sem eru innflytjendur eru 11% karla í borginni.

Fram kemur að fjórar konur (19%) hafa verið borgarstjórar frá árinu 1932 og sautján karlar (81%). Þrjár af þeim konum sem gegndu embættinu sátu ekki heilt kjörtímabil og ein þeirra gegndi því ásamt karli.

 

Ný og endurbætt útgáfa af kynlegum tölum.