föstudagur, 19. desember 2014

Í nótt klukkan fjögur var mannskapur og tæki ræst út til starfa við snjóhreinsun og hálkueyðingu í Reykjavík. Slíkt telst líklega ekki lengur til tíðinda því þannig hefur það verið undanfarna daga.  Í gærkvöldi var í unnið vel fram á kvöld, flestir voru til 21:00 og einhverjir voru lengur að.

  • Verkefnin við snjóhreinsunina eru næg.
  • Tækjakostur sem notaður er við snjóhreinsun er margvíslegur. Hér er starfsmaður hverfastöðvar með snjóblásara.

Í dag verða í heildina um 55 öflugir bílar og tæki nýtt til snjóhreinsunar og að auki er 25 manna reyndur flokkur fá hverfastöðvunum við störf á flokkabílum með ýmsan búnað. Það er eitthvað minni tækjakostur en var í gær vegna bilana á tækjum.

Mikill mannafli og tækjakostur

Í grófum dráttum má skipta verkefnum Reykjavíkurborgar við snjóhreinsun og hálkueyðingu í þrennt eftir hvort um er að ræða umferðargötur, stíga og gangstéttar eða stofnanalóðir og strætóskýli.  Aðstæður kalla á mismunandi tækjakost og aðferðir, en markmiðið er það sama: að tryggja greiðar leiðir.

Í dag verða 35 bílar og vinnuvélar notaðar við snjóhreinsun og hálkueyðingu á umferðargötum og eru þá ótaldar vélar Vegagerðarinnar sem sinnir snjóhreinsunar á stofnbrautum að miklu leyti. Götum er skipt í þjónustuflokka eftir forgangi og var unnið í öllum flokkum gatna í gær og verður áfram í dag og næstu daga.  Heildarlengd gatna sem þarf að hreinsa er 445 km. og þær þarf að fara oft til að ryðja öllum snjó.

Á stígum og gangstéttum eru 13 sérútbúnar dráttarvélar með plóga og sanddreifingarbúnað á ferðinni  og hafa verið frá því klukkan 4 í nótt og verða fram á kvöld. Heildarlengd stíga og gangstétta sem falla undir vetrarþjónustu eru 687 km.

Sérstakur hópur með 6 traktorsgröfur var einnig ræstur út í nótt en hann sér um hreinsun á strætóbiðstöðvum, sem og við leikskóla, grunnskóla, sundlaugar og nokkrar stofnanir Reykjavíkurborgar. Þá er um 25 manna hópur frá hverfastöðvunum sem sér um mokstur á stöðum sem tæki komast ekki að og einnig sér hópurinn um að sanda og salta við stofnanalóðir og á strætóbiðstöðum.

700 símtöl á dag

Reykjavíkurborg vill standa vel að snjóhreinsun og hálkueyðingu.  Borgin þiggur allar ábendingar um það sem betur má fara, bæði um hvernig vinnan er skipulög sem og hvernig að framkvæmd er staðið. 

·         Upplýsingar um snjóhreinsun og hálkuvarnir er á þjónustusíðu á vef Reykjavíkurborgar >>>   http://reykjavik.is/thjonusta/snjohreinsun-og-halkuvarnir

·         Tekið er við ábendingum í síma- og þjónustuveri í síma 411 11 11  og einnig á vefsíðunni >>>  http://reykjavik.is/thjonusta/abendingar-til-borgarinnar

Símaver Reykjavíkurborgar hefur tekið við um 700 símtölum á dag tengdum snjóhreinsun frá því byrjaði að snjóa 9. desember. Unnið er úr þeim öllum og þau sett í ábendingakerfið til að halda utan um verkefnið með skipulegum hætti.

Umferðargötur

Snjóhreinsun á umferðargötum sinna að jafnaði 8 stórir vörubílar með snjótönn og salt- og pækildreifara.  Verktakar leggja til bíla og mannskap og þeir geta kallað út aukabíla, sem hefur verið nýtt að undanförnu.  Einnig getur Reykjavíkurborg  kallað til allt að 25 – 35 vélar hjá verktökum og það eru traktorsgröfur, hjólaskóflur (Payloaderar) sem eru með tönn þegar verið er að ryðja og vegheflar.  Í gær voru 30 vélar í þessum verkefnum.  Meðal búnaðar til að setja á þessi tæki eru snjóblásarar og tennur og plógar af ýmsum  gerðum.   Þá hefur borgin kallað til stóra vörubíla til að fjarlægja snjó og frá í gær erum við með 4 slíka í verkefnum, auk snjóblásara til að ferma þá.  

Starfsmenn hafa undanfarið verið ræstir út um miðja nótt og eru komnir af stað kl. 4. Að undanförnu daga hefur verið unnið fram á kvöld.

Í gær voru 43 vinnuvélar í þessum verkefnum á umferðargötunum og eru þá ótaldar vélar Vegagerðarinnar sem sinnir stórum hluta snjóhreinsunar á stofnbrautum. Götum er skipt í nokkra þjónustuflokkar og var í gær unnið í þeim öllum. Þjónustuflokkar gatna eru fimm og er heildarlengd þeirra 445 km. og flestar þeirra þarf að aka margoft við snjóruðning og söltun.  Við snjóhreinsun íbúagatna er líklegt að við innkeyrslur myndist snjóruðningar sem Reykjavíkurborg sér ekki um að hreinsa. Það fellur því í hlut íbúanna sjálfra að hreinsa burt snjó úr innkeyrslum. Þá verður að árétta að ekki er rutt á lóðum fjölbýlishúsa innan lóðarmarka.

Umferðargata

Vegalend

Þjónustuflokkur

Stofn- og tengibrautir

49 km

Þjónustuflokkur 1 með sólarhringsvakt : Yfirborði er haldið hreinu af snjó allan sólarhringinn. Verkaskipting er milli Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar (49 km er það sem Reykjavíkurborg sér um).

Fjölfarnar safngötur og strætóleiðir

183 km

Þjónustuflokkur 2 með sólarhringsvakt: Alltaf teknar í fyrstu yfirferð dagsins og eftir þörfum.  

Safngötur

77 km

Þjónustuflokkur 3: Eru þjónustaðar að jafnaði einu sinni á dag, nema brýna nauðsyn beri til.

Húsagötur

228 km

Þjónustuflokkur 4: Teknar eftir þörfum, rutt þegar þungfært er vegna snjóa eða sandað í mikilli hálku

Upphitaðar götur

8,5 km

Götur með undirliggjandi hitakerfi aðallega í 101 og 113 (miðborg og Grafarholt)

Stígar og gangstéttar

Dráttarvéladeildin í þjónustumiðstöð borgarlandsins sér um snjóhreinsun á öllum helstu hjólastígum (stofnstígum) í Reykjavík  og á öllum göngu- og hjólastígum austan Reykjanesbrautar. Dráttarvéladeildin er með 8 traktora (2,7 tonna) sem keyptir voru nýir fyrir tæpum þremur árum síðan og hafa reynst einstaklega vel.  Dráttarvélarnar eru yfirleitt útbúnar með tönn og sanddreifara, en einnig eru til tveir snjóblásarar og einn plógur og einn pækildreifari til reiðu.   Sandurinn sem notaður er á hjólasstígana og gönguleiðirnar er 0 – 8 mm (möskvastærð á sigi). 

Einnig vinnur verktaki fyrir Reykjavíkurborgar og er það Garðlist, sem sér um gönguleiðir og sameiginlegar göngu-og hjólaleiðir vestan Reykjanesbrautar.  Á þeirra snærum eru 5 dráttarvélar (2,5 – 3 tonn) útbúnar tönn og sanddreifara.

Starfsmenn Reykjavíkurborgar og verktaka á hennar vegum eru iðulega ræstir út um miðja nótt – oft um kl. 4 og síðustu daga hefur verið unnið frameftir.  Unnið er alla vikuna að frátöldum sunnudögum, nema sérstaklega sé kallað út.

Stígar

Vegalend

Þjónustuflokkur

Hjólastígar (stofnleiðir):

56 km

Þjónustuflokkur 1A:  Hreinsun sé lokið fyrir kl. 7:30

Helstu gönguleiðir

149 km

Þjónustuflokkur 1B  - tengingar milli hverfa, kringum skóla og verslunarmiðstöðvar: Hreinsun sé lokið fyrir kl. 8:00

Aðal gönguleiðir

153 km

Þjónustuflokkur 2 –aðallega inn í íbúðarhverfum: Hreinsun sé lokið fyrir kl. 12:00

Fáfarnari gönguleiðir

138 km

Þjónustuflokkur 3 – inn í húsagötum: Hreinsun sé lokið innan 36 klst. frá því snjóaði

Aðrir stígar

274 km

Þjónustuflokkur 4– t.d. stígar inn í hverfum þar sem rutt hefur verið hinum megin götunnar: Ótímasett

Upphitaðir stígar

17 km

Stígar með undirliggjandi hitakerfi

 

Strætóskýli, leikskólar, grunnskólar og aðrar stofnanalóðir

Reykjavíkurborg sinnir snjóhreinsun við strætóbiðstöðvar, auk þess að sanda og salta aðkomuleiðir að þeim eftir þörfum.  Þá eru gönguleiðir og bílastæði við leikskóla, grunnskóla,  sundlaugar og nokkrar stofnanir hjá Velferðarsviði hreinsaðar. 

Starfsmenn hverfastöðvanna sjá um söltun og söndun á strætóbiðstöðvunum og stofnanalóðum, sem og annars staðar þar sem ekki er hægt að koma vélum að, eins og t.d. „gegnumtökin“ eða gönguleiðir yfir stofnbrautir þar sem járngrindur hindra vélar í að komast í gegn. 25 menn  frá hverfastöðvunum sinna þessu.  Einnig eru nokkrir flokkabílar hverfastöðva með tennur og hægt að nota þá til snjóruðnings.

Reykjavíkurborg er með 6 verktaka (vélar) sem sinna þessum verkefnum. Vélar eru ræstar út kl. 4 á nóttunni þegar þörf er á og með mannaskiptum á vélarnar er hægt að vinna fram eftir kvöldum, jafnvel til 10 eða 11, þegar þörf er á.  Hreinsað er alla daga vikunnar því oft þarf að sæta lagi áður en bílastæði fyllast við stofnanalóðir.   6 verktakar sinna þessu fyrir borgina.

 

Tengdar fréttir og ítarefni: