miðvikudagur, 19. janúar 2022

Á velferðarsvið eru nú 236 starfsmenn í sóttkví eða einangrun, eða tæplega 7% starfsmanna. Á fundi velferðarráðs í dag var farið þær aðgerðir sem gripið hefur verið til á sviðinu vegna yfirstandandi bylgju Covid-19. Teiknaðar hafa verið upp fjórar sviðsmyndir til að leggja mat á hversu margir starfsmenn þurfa að vera fjarverandi til þess að starfseminni sé ógnað. 

  • Hópastarf í félagsmiðstöðvum liggur nú niðri en félagsmiðstöðvar eru þó opnar og heitt á könnunni.

Þegar neyðarstigi Almannavarna var lýst yfir í fjórða sinn í Covid-19 faraldrinum 11. janúar voru neyðaráætlanir velferðarsviðs virkjarðar. Allir starfsstaðir sviðsins sem veita sólarhringsþjónustu, þar sem þjónusta má ekki raskast, eru með viðbraðgsáætlanir sem gilda á neyðarstigi. Um 2000 starfsmenn velferðarsviðs vinna á þeim stöðum í 1.200 stöðugildum. Í heild vinna 3500 manns í 2000 stöðugildum á velferðarsviði. 

Í áhættumati sem velferðarsvið hefur unnið er farið yfir þá starfsstaði sem eru ekki með sólarhringsþjónustu og áhætta metin ef það þarf að loka þeim. Viðbúið er að starfsfólk af þeim starfsstöðum stígi í auknum mæli inn í störf þar sem þjónusta þarf að vera óskert. Þegar eru dæmi um að starfsfólk af íbúðakjörnum stígi inn á vaktir á öðrum kjörnum þar sem staðan hefur verið þyngri. Þá hafa einstaklingar sem starfa á skrifstofu velferðarsviðs en hafa reynslu af því að vinna með fötluðu fólki stigið inn og tekið vaktir. Viðbúið er að slíkar tilfærslur eigi eftir að aukast næstu daga og vikur.  

Ekki hefur þurft að skerða þjónustu að miklu marki í yfirstandandi bylgju. Þó liggur hópastarf í félagsmiðstöðum niðri fyrir eldra fólk en félagsmiðstöðvarnar eru þó opnar og heitt á könnunni. Þá eru mötuneyti lokuð en fólk getur ýmist sótt matinn sjálft eða fengið matinn sendan heim.