miðvikudagur, 2. apríl 2014

Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í gær að beita sér fyrir átaki gegn heimilisofbeldi. Í því skyni verður óskað eftir samstarfi við sveitarfélög og lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, lögregluskólann, grasrótar- og stuðningssamtök .

  • Reykjavík

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG lagði fram tillöguna á fundi borgarstjórnar. Í tillögunni er bent á að með samstarfi við sveitarfélög og lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, lögregluskólann, grasrótar- og stuðningssamtök megi auka samstarf, þekkingarmiðlun og bæta verklag til að taka á þeim heimilisofbeldismálum sem upp koma. Sérstaklega verður horft til þess árangurs sem náðst hefur á Suðurnesjum og víða á Norðurlöndum með breyttu og bættu verklagi.

Tillagan var Samþykkt með 15 atkvæðum ásamt viðaukatillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Lagt er til að sérstaklega verði skoðað hvernig sporna megi við ofbeldi gegn þeim sem tilheyra minnihlutahópum. Sérstaklega verði sjónum beint að fötluðum konum og konum af erlendum uppruna, enda hafa rannsóknir sýnt að þriðjungur fatlaðra kvenna verður fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi og stór hluti kvenna sem koma í Kvennaathvarfið er af erlendum uppruna. Lagt er til að sérstaklega verði skoðað hvernig best er að aðstoða þennan hóp og aðra hópa sem veikast standa, en ljóst er að nálgast verður þær lausnir með öðrum hætti en almennt gerist.

Á fundinum lagði borgarstjórn fram svohljóðandi bókun:

Borgarstjórn Reykjavíkur er á móti ofbeldi. Heimilisofbeldi er samfélagslegt mein sem okkur ber að sporna gegn með öllum tiltækum ráðum. Það er því með ánægju að við samþykkjum að fara í sérstakt átak gegn heimilisofbeldi, í samvinnu við lögregluna, önnur sveitarfélög og samtök sem hafa reynslu og þekkingu á ofbeldi á heimilum fólks. Sérstaklega verður sjónum beint að fötluðum konum og konum af erlendum uppruna. Reykjavíkurborg er reiðubúin til að kanna og innleiða allar þær aðferðir sem stuðlað geta að friðsælli borg og auknu öryggi borgarbúa.

Samþykktinni var vísað til borgarráðs  sem vísar tillögunum til viðeigandi stofnana sem munu gera  verk- og kostnaðaráætlun.