föstudagur, 14. janúar 2022

Vegna tíu manna fjöldatakmarkana sem taka gildi á miðnætti fellur matarþjónusta í félagsmiðstöðvum velferðarsviðs niður. Hins vegar verður boðið upp á heimsendan mat og geta gestir félagsmiðstöðva einnig sótt hann á staðinn.

  • Boðið er upp á heimsendan mat og geta gestir félagsmiðstöðva einnig sótt hann á staðinn.

Félagsmiðstöðvarnar eru opnar, heitt kaffi verður á könnunni og opið fyrir spjall en hópastarf fellur niður. Boðið verður upp á símtöl heim fyrir þau sem þess óska. 

Allt kapp er lagt á að halda úti óskertri þjónustu á starfsstöðum velferðarsviðs. Undanþágur sem áður fengust í húsnæði fyrir fatlað fólk, í þjónustuíbúðum, dagdvölum, neyðarskýlum og á vinnu- og virknimiðuðum starfsstöðum hafa verið endurnýjaðar, sem auðveldar allt starf til muna. 

Þjónustumiðstöðvar velferðarsviðs eru opnar. Þó þarf að takmarka umferð um þjónustuskála miðstöðvanna eins og kostur er. Viðskiptavinum er bent á að nýta símtöl og tölvupóst til að panta viðtöl eða boða komu sína ef hægt er, frekar en að koma á staðinn. 

Þjónustumiðstöðvar velferðarsviðs eru fjórar: 

  • Þjónustumiðstöð Breiðholts. Álfabakka 10, 109 Reykjavík, sími 411 1300, netfang: breidholt@reykjavik.is.
  • Sameinuð Þjónustumiðstöð Árbæjar, Grafarholts, Grafarvogs og Kjalarness – Hraunbær 115, 110 Reykjavík og Gylfaflöt 5, 112 Reykjavík. Sími 411 1200 og 411 1400. Netfang: arbaer-grafarholt@reykjavik.is / midgardur@reykjavik.is.
  • Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis. Efstaleiti 1, 103 Reykjavík, sími 411 1500, netfang: laugardalur.haaleiti@reykjavik.is.
  • Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, Laugavegur 77, 101 Reykjavík, sími 411 1600, netfang: vmh@reykjavik.is.