mánudagur, 17. janúar 2022

Fjögur ný göngu- og hjólastígaverkefni voru kynnt í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar í síðustu viku. Veitt var heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna fyrir eftirtaldar stígaframkvæmdir. 

 • Kort yfir staðsetningar göngu- og hjólastígaframkvæmda.
 • Kort af Elliðaárdal.
 • Arnarnesvegur / Breiðholtsbraut.
 • Þverársel við ÍR.

Aðskildir göngu- og hjólastígar – ný verkefni 

 • Skógarhlíð, frá Litluhlíð að Miklubraut. Ný göngu- og hjólaleið frá undirgöngum inn í Skógarhlíð auk bættrar stígatengingar yfir í Eskihlíð. 
 • Elliðaárdalur, Vatnsveitubrú – Breiðholtsbraut. Lengd stígs um 1.500 m. Reistar verða tvær nýjar brýr og verður náttúra og umhverfi í fyrirrúmi í hönnun og útfærslu. Framkvæmdinni verður skipt í tvo áfanga. 
 • Arnarnesvegur / Breiðholtsbraut. Heildarlengd stíga er um 2.300 m innan Kópavogs og Reykjavíkur. Einnig verður reist brú en í skoðun er að gera vistlok í stað brúar. 
 • Krókháls/Dragháls, frá Höfðabakka að Suðurlandsvegi. Samtals um 1.300 m. 

Áætlaður heildarkostnaður er um 1.350 milljónir króna en heildarlengd stíganna er tæpir sex kílómetrar.  

Gert er ráð fyrir að hluti verkefnanna verði greiddur af samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins í samræmi við samkomulag þar um en önnur verkefni af viðkomandi liðum fjárfestingaráætlunar, svo sem hjólreiðaáætlun og gerð stíga í eldri hverfum. 

Áður kynnt verkefni 

Á árinu er einnig gert ráð fyrir að halda vinnu áfram við eða ljúka áður kynntum framkvæmdum á eftirfarandi stöðum. 

 • Sörlaskjól / Faxaskjól. Lengd stíga er um 740 m. 
 • Rafstöðvarvegur, Toppstöð – Bíldshöfði. Lengd stíga um 570 m. 
 • Eiðsgrandi og Ánanaust. Göngustígur er um 850 m og hjólastígur um 350 m. Nýr göngustígur er unninn samhliða endurgerð sjóvarnargarðs. Núverandi stígur í Ánánaust er endurbættur að hluta og gerður að hjólastíg til aðgreiningar. 
 • Hálsabraut. 
 • Þverársel við ÍR. Lengd sameiginlegs göngu og hjólastígs um 500 m. 
 • Rofabær, borgargata. Aðskilnaður gangandi og hjólandi. Heildarlengd tæpir 1.200 m. Lengd fyrsta áfanga er um 400 m. 
 • Réttarholt, Réttarholtsvegur að Sogavegi. Tæpir 700 m. 
 • Kjalarnes, Hringvegur (1), Varmhólar – Vallá.  
 • Elliðaárdalur – Hitaveitustokkur. Nýr stígur lagður í stað stokks sem búið er að fjarlægja. 250 m, þar af tvær brýr. 
 • Háaleitisbraut – Bústaðavegur, gatnamót. Aðskilin göngu- og hjólaleið um gatnamót auk tenginga við aðliggjandi stíga. Gatnamótin verða endurhönnuð og verða ljósastýrðar göngu- og hjólaleiðir um gatnamótin á alla vegu. 

Undirbúningur er kominn mislangt á leið við þessi verkefni en stefnt er að því að framkvæmdir hefjist á árinu 2022. 

Athygli er vakin á því að þetta eru helstu stígaframkvæmdir en ekki tæmandi listi. 

Hjólaborgin Reykjavík 

Aukin hlutdeild hjólreiða mun hafa góð áhrif á samgöngur, umhverfi, lýðheilsu, lífið í borginni og skapa betri borg. Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025 var samþykkt í vor. Markmið áætlunarinnar er að auka hlutdeild hjólreiða í ferðum í borginni en stefnt er að því að að minnsta kosti 10% allra ferða í borginni verði farnar á hjóli árið 2025.  

Tenglar 

Kort yfir staðsetningar göngu- og hjólastígaframkvæmda.

Kynning á framkvæmdunum með skýringarmyndum

10% allra ferða í borginni á hjóli árið 2025.

Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025.