þriðjudagur, 18. janúar 2022

Jasmina Vajzovic Crnac hefur verið ráðin til að leiða nýtt teymi alþjóðamála á velferðarsviði. Teymið ber ábyrgð á þjónustu við einstaklinga, börn og fjölskyldur af erlendum uppruna, veitir faglega forystu og leiðir umbætur. Jasmina hefur mikla reynslu af störfum í velferðarþjónustu, auk þess að búa að þeirri reynslu að hafa sjálf verið flóttamaður. Í heild sóttu 36 einstaklingar um starfið. 

  • Jasmina Vajzovic Crnac hefur verið ráðin til að leiða nýtt teymi alþjóðamála á velferðarsviði.

Um síðustu áramót var sérstakt alþjóðateymi stofnað á velferðarsviði en í nýsamþykktri velferðarstefnu Reykjavíkurborgar er lögð áhersla á að efla þjónustu velferðarsviðs við fólk af erlendum uppruna. Þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem er undir forystu Magdalenu Kjartansdóttir, og teymi um móttöku fólks af erlendum uppruna, sem Edda Ólafsdóttir stýrir, eru hluti af nýja alþjóðateyminu. Í heild starfa 27 manns í alþjóðteyminu sem er um þessar mundir að koma sér fyrir í Þjónustumiðstöð Breiðholts þar sem það mun hafa aðsetur. 

Í starfi sínu mun Jasmina meðal annars bera ábyrgð á þróun og innleiðingu á nýbreytni í þjónustu sem veitt er einstaklingum, börnum og fjölskyldum af erlendum uppruna. Hún mun koma að gerð samninga við félagsmálaráðuneyti og Útlendingastofnun vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd og samræmda móttöku flóttafólks, bera ábyrgð á því að veita starfsfólki og stjórnendum velferðarsviðs ráðgjöf, auk margra annarra verkefna. 

Jasmina er fædd og uppalin í Bosníu og Hersegóvínu. Sem barn og unglingur upplifði hún stríðsátök í heimalandi sínu en hún kom hingað til lands 15 ára gömul ásamt fjölskyldu sinni. Hún býr því að persónulegri reynslu sem án vafa nýtist henni í uppbyggingu þjónustu við fólk af erlendum uppruna en hún hefur einnig víðtæka faglega þekkingu og reynslu þegar kemur að málaflokknum. Í störfum sínum hefur Jasmina lagt mikla áherslu á réttindi fólks á flótta.

Jasmina er með BA-gráðu í stjórnmálafræði og diplóma í opinberri stjórnsýslu við HÍ. Hún er varabæjarfulltrúi í Reykjanesbæ og hefur verið fulltrúi velferðarnefndar og áfrýjunarnefndar velferðarmála. Á árunum 2019 til 2021 var hún verkefnastjóri fjölmenningar í menningarhúsum Kópavogsbæjar. Að undanförnu hefur hún gegnt starfi verkefnastjóra hverfisverkefna í Breiðholti, þar sem hún hefur tekið þátt í mótun og þróun tilraunaverkefna. Þar stýrir hún fjölbreyttum verkefnum sem miða að því að efla og styrkja fólk af erlendum uppruna, til að mynda sendiherraverkefninu sem vel hefur tekist til með.  

Jasmina var nýverið gestur Veltunnar, hlaðvarps velferðarsviðs. Hægt er að hlusta á þáttinn hennar hér: