miðvikudagur, 25. nóvember 2015
Í dag er alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi.  Reykjavíkurborg, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við Kvennaathvarfið hófu í byrjun þessa árs átak gegn heimilisofbeldi sem kallast Saman gegn ofbeldi.
  • Rauðgulur er litur dags gegn kynbundnu ofbeldi. Hér eru Sigríður  Björk Guðjónsdóttir, Lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í rauðgulum tóni við undirritun samnings þar sem ákveðið var að vinna saman gegn heimilisofbeldi.

Til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi hófu Reykjavíkurborg og Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við Kvennaathvarfið í janúar s.l. átak gegn heimilisofbeldi sem kallast Saman gegn ofbeldi. Markmið samstarfsins er að taka markvisst á þeim heimilisofbeldismálum sem upp koma í því skyni að tryggja öryggi borgarbúa á heimilum sínum.
 
Þolendum er veitt betri þjónusta en áður og gerendur eru hvattir til að sækja meðferð. Þá hefur vinna lögreglunnar á vettvangi verið bætt.
 
Mikilvægur hluti verkefnisins er að bæta stöðu barna sem búa við heimilisofbeldi en barnavernd fer með lögreglunni í útköll vegna heimilisofbeldis þegar börn eru á heimilinu og styður við þau í kjölfarið.
 
Unnið hefur verið áfangamat á verkefninu af RIKK- Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum. Matið byggði m.a. á djúpviðtölum við þolendur, viðtölum við lykilstarfsfólk og rýnihópum lögreglu og starfsfólks þjónustumiðstöðva borgarinnar og barnaverndar Reykjavíkur. Verkefnið mælist vel fyrir og fram kemur að miklu hefur verið áorkað á þessum stutta tíma sem verkefnið hefur staðið yfir og að samstarf milli lögreglu, þjónustumiðstöðvanna og barnaverndar hafi verið gott. Vinnulag hafi batnað eftir því sem á leið verkefnatímann og starfsfólk hafi fengið tíma til að venjast nýjum vinnubrögðum.
 
Í matinu er einnig að finna tillögur til úrbóta og vegur þar þyngst að bæta þurfi eftirfylgni mála, mikilvægt sé að ná til fatlaðra þolenda og skoða þurfi víðtækara samstarf t.d. við heilbrigðiskerfið.
 

Matið má sjá hér