miðvikudagur, 17. október 2012

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum í dag nýja lestrarstefnu fyrir grunnskóla Reykjavíkur. Í henni er kveðið á um að auka vægi lestrar og ritunar í öllu námi og á öllum skólastigum.

Í nýrri lestrarstefnu segir m.a. að nemendur skuli fá kennslu og þjálfun í mismunandi lestrarlagi eða lestrartækni, s.s. ítarlestri, nákvæmnislestri, leitarlestri eða skimunarlestri. Einnig að laga skuli kennslu að ólíkri getu nemenda innan hvers nemendahóps. Þá er hvatt til þess að skólar hafi aðgang að kerfisbundnu námsmati sem nái til allra þátta lestrarnámsins og allra aldursstiga svo taka megi réttar ákvarðanir fyrir hvern og einn um áframhaldandi lestrarnám og þjálfun. Einnig er stefnt að því að viðfangsefni barna og unglinga í lestri séu merkingarbær, fjölbreytt og áhugaverð.

Skóla- og frístundaráði þótti við hæfi að samþykkja lestrarstefnu fyrir grunnskóla Reykjavíkurborgar nú í október þegar fram fer lestrarhátíð í tengslum við verkefnið Reykjavík, bókmenntaborg UNESCO.

Sjá lestrarstefnu fyrir grunnskóla Reykjavíkur.