miðvikudagur, 9. mars 2016
Þriðjudaginn 23. febrúar fundaði Reykjavíkurráð ungmenna með borgarstjórn. Bornar voru upp átta tillögur sem allar sneru að hagsmunamálum ungs fólks í borginni. 
  • Karitas Bjarkardóttir í ræðustól.
  • ""
  • ""
  • ""
  • ""
  • ""
Fundur Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarstjórnar er orðinn að árvissum viðburði og var þessi fundur sá fimmtándi í röðinni og fjörugur að vanda. Fulltrúar ungmennaráðanna mæltu fyrir átta tillögum á fundinum sem m.a. sneru að bættri kynþroskafræðslu, betra stuðningsneti í skólum fyrir börn af erlendum uppruna, betra aðgengi barna að sálfræðiþjónustu, uppbyggingu á afþreyingarmiðstöð við Rauðavatn og regluleg ungmennaþing um málefni sem brenna á ungu fólki. 
 
Fundurinn var líflegur og fjölmargir mættu á áheyrendapalla til að fylgjast með tillöguflutningi unga fólksins og umræðum. Allar tillögurnar voru samþykktar og fagráðum falið að taka þær til skoðunar og meðferðar.  
 
Reykjavíkurráð ungmenna hefur haft í nógu að snúast að undanförnu en fulltrúar í ráðinu voru með erindi á Öskudagsráðstefnu grunnskólakennara í Reykjavík, sátu ráðstefnu sem hafði yfirskriftina „Skipta raddir ungs fólks máli“ ásamt rúmlega hundrað öðrum áhugasömum aðilum í síðustu viku, auk þess sem fulltrúar ráðsins eiga áheyrnarfulltrúa á fundum skóla- og frístundaráðs, íþrótta- og tómstundaráðs og í stjórn Barnamenningarhátíðar.
 
Markmið með starfsemi Reykjavíkurráðs ungmenna er m.a. að skapa vettvang og leiðir til þess að gera þeim sem eru yngri en 18 ára kleift að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri við og þjálfast í lýðræðislegum vinnubrögðum. Í starfi sínu í vetur og síðastliðin ár hefur Reykjavíkurráðið fjallað um málefni ungs fólks og tekið þátt í ýmsum verkefnum. Reykjavíkurráð ungmenna er jafnframt samráðsvettvangur allra ungmennaráða sem starfa í borginni.